Home Fréttir Í fréttum Skatturinn og Skattrannsóknarstjóri leita framtíðarhúsnæðis

Skatturinn og Skattrannsóknarstjóri leita framtíðarhúsnæðis

226
0

Fara úr 15 þús. í 9.800 fermetra
Um hvítasunnuhelgina birtist á í blöðum og á vef Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) auglýsing þar sem auglýst er eftir 9800 fermetra húsnæði sem hýsa mun starfsemi Skattsins og Skattrannsóknarstjóra (SRS).

<>

Um hvítasunnuhelgina birtist á í blöðum og á vef Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR) auglýsing þar sem auglýst er eftir 9800 fermetra húsnæði sem hýsa mun starfsemi Skattsins og Skattrannsóknarstjóra (SRS). Auglýsinguna má finna hér .

Eins og staðan er í dag er húsakostur Skattsins (Laugavegur og Tollhúsið) 14.049m². SRS er til húsa í Borgartúni 7 og hefur til umráða 944 m2.

Húsrýmisáætlun FSR fyrir stofnanirnar tvær gerir ráð fyrir 9.800 m2 og er því töluvert tækifæri til hagræðingar. Þá hentar núverandi húsnæði illa, enda hannað fyrir tíma stafrænna verkferla.

Húsnæðið sem óskað er eftir mun hýsa 434 starfsmenn stofnananna tveggja, en í húsrýmisáætlun FSR er gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna beggja stofnana.

Leitað er að húsnæði fyrir stofnanirnar tvær á miðlægum stað á höfuðborgarsvæðinu, í nálægð við aðrar stofnanir t.d. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómstóla, Fjársýsluna, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Héraðssaksóknara, Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu og Tryggingarstofnun og einnig í nánum tengslum við helstu almenningsæðar, með góða tengingu við almenningssamgöngur m.a. fyrirhugaða borgarlínu.

Skatturinn varð til við sameiningu embætta Ríkisskattstjóra og Tollstjóra þann 1. janúar 2020 í eina öfluga og leiðandi upplýsingastofnun. Starfsmenn hans eru um 478 á 15 starfsstöðvum.

Aðalstöðvar stofnunarinnar eru á Laugavegi 164-166 í Reykjavík. Skatturinn hefur með höndum álagningu opinberra gjalda og annarra skatta og gjalda auk þess að annast skatteftirlit. Hann setur framkvæmdar- og starfsreglur ásamt leiðbeiningum og birtir eftir því sem efni standa til og þýðingu hefur.

Skatturinn hefur einnig með höndum tollgæslu og tollafgreiðslu í landinu. Í því felst m.a. að hafa eftirlit með innflutningi m.a. ólöglegs innflutnings á fíkniefnum, falsaðs varnings (t.d. matvæla og lyfja), vopna, geislavirkra og annarra hættulegra efna, vöru með tvíþættan tilgang, menningarverðmæta sem og tryggja farmvernd, sóttvarnir og öryggi vöru.

Skatturinn tekur þátt í vörnum gegn skipulagðri glæpastarfsemi til að sporna við áhrifum hennar á öryggi almennings.

Embætti Skattrannsóknarstjóra ríkisins (SRS) fer með rannsóknir skattsvika og annarra skattalagabrota. Jafnframt hefur hann með höndum rannsóknir á brotum á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Þá tekur skattrannsóknarstjóri ákvörðun um og hlutast til um refsimeðferð ætlaðra brota í kjölfar rannsókna embættisins, ýmist með því að gengist er undir sektargerð hjá skattrannsóknarstjóra, með því að skattrannsóknarstjóri fari fram með sektarkröfu fyrir yfirskattanefnd eða með því að vísa máli til ákærumeðferðar hjá lögreglu.

Hlutverk embættis skattrannsóknarstjóra og verkefni hans er að finna í ýmsum ákvæðum skattalaga, einkum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. m.a. 103. gr. þeirra laga, laga nr. 145/1994, um bókhald og laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Þá gildir um starfsemina reglugerð nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins er til húsa að Borgartúni 7B. Heildarfjöldi starfsmanna er nú 28 talsins. Hefur fjölgun orðið á stöðugildum hjá embættinu sl. ár. Með fjölgun verkefna er gert ráð fyrir að þeir verði um 45 innan 4 ára.

Heimild: Fsr.is