Aðeins 20,5 milljónir fengust greiddar upp lýstar forgangskröfur í þrotabú verktakafyrirtækisins SS húsa, en félagið var úrskurðað gjaldþrota í janúar árið 2018. Samtals var lýst kröfum upp á 883,7 milljónir í búið.
Meðal krafna í búið voru launakröfur frá starfsmönnum og kröfur frá skattayfirvöldum og tollstjóra.
SS hús var í eigu Sigurðar Kristinssonar, en hann átti félagið ásamt bróður sínum og stjúpföður. Sigurður var í lok árs 2018 dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar skattalagabrot í rekstri annars félags sem hann rak einnig, SS verk. Þá var honum gert að greiða 137 milljónir í sekt. Auk hans var tengdamóðir Sigurðar dæmd fyrir skattalagabrot í rekstri félagsins og fékk hún 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða 106 milljóna króna sekt.
Áður hafði SS verk verið tekið til gjaldþrotaskipta, en gjaldþrot félagsins nam 206 milljónum króna. Samtals nema því gjaldþrot þessara tveggja félaga rúmlega milljarði króna.
Sigurður var auk þess dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsis fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots í svokölluðu Skáksambandsmáli. Varðaði það smygl á fimm kílóum af amfetamíni til landsins frá Spáni árið 2017.
Efnin voru falin í skákmunum og send með pakka sem stílaður var á Skáksambands Íslands, sem hafði þó ekkert með málið að gera. Þegar efnin bárust til Skáksambandsins var lögregla á Spáni þó búin að komast á snoðir um smyglið og skipta út efnunum.
Heimild: Mbl.is