Ný talning Samtaka iðnaðarins (SI) leiðir í ljós verulegan samdrátt í smíði íbúða. Þannig voru 42% færri íbúðir á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu en í talningu samtakanna vorið 2019.
Vegna þessa hafa SI endurmetið spá sína um fjölda fullgerðra íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Þau áætla nú að um 2.100 íbúðir verði fullgerðar í ár en það er 30% samdráttur frá spánni í mars 2019.
„Afgerandi skilaboð“
„Stóru tíðindin eru verulegur samdráttur í byggingum upp að fokheldu, þ.e.a.s. upp að fyrstu byggingarstigum, eða rúmlega 40%. Það eru afgerandi skilaboð um stöðuna. Þótt sjá megi krana víðs vegar um bæinn eru það fyrst og fremst verkefni sem fóru af stað fyrir löngu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Merki um samdrátt í byggingariðnaði hafi byrjað að birtast í fyrra. Sala á sementi og steypustyrktarjárni hafi m.a. dregist saman.
Vegna þessa samdráttar muni færri íbúðir koma á markað á næstu árum. Fyrir vikið kunni að skapast skortur á íbúðum eftir 3-5 ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is