Home Fréttir Í fréttum Kostnaður við leikskóla á Þórshöfn langt fram úr áætlun

Kostnaður við leikskóla á Þórshöfn langt fram úr áætlun

226
0
Mynd: Heimasíða Langanesbyggðar - RÚV

Kostnaður við nýjan leikskóla á Þórshöfn fór rúmar 90 milljónir fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun.  Engin tilboð bárust í verkið og það segir oddviti sveitarstjórnar að sé helsta ástæðan fyrir auknum kostnaði. Þá var hönnunarkostnaður ekki tekinn með í reikninginn.

<>

Minnihluti sveitarstjórnar í Langanesbyggð hefur gert alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að undirbúningi og framkvæmd við byggingu leikskóla á Þórshöfn sem tekinn var í notkun í haust.

Mikill kostnaður sé vegna aukaverka sem hefðu ekki þurft að koma til ef verkið hefði verið betur undirbúið, þarfagreining og hönnun hafi ekki verið nægjanlega góð og utanumhaldi á verktíma verið ábótavant.

Segir byggingakostnað 12 prósent umfram áætlun
Í bókun minnihlutans segir að sveitarstjórn hafi samþykkt kostnaðaráætlun upp á 200 milljónir króna.

Nú sýni endanlegt uppgjör 313 milljóna kostnað við verkið. „Raunáætlun gerir ráð fyrir 222 milljónum, en byggingakostnaður endar í 250, sem eru í raun 12% fram úr áætlun,“ segir Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti sveitarstjórnar.

Gatnagerð, innréttingar og hönnun ekki í byggingaráætlun
Það sem út af stendur séu útgjöld sem ekki hafi verið í áætlun um eiginlegan byggingarkostnað. „Svo sem lagning malbiks á veg að leikskólanum, varmadæluvæðing leikskólans, inni í þessarri tölu eru líka innréttingar og búnaður sem var ekki inni í byggingaráætlun.

Svo er það hönnunar- og eftirlitskostnaður sem er líka stór þáttur í þessu máli,“ segir hann.

Mikill auka kostnaður því enginn bauð í verkið
Þorsteinn segir að eftirlit með verkinu hafi reynst mun dýrara en til stóð. Engin tilboð bárust í byggingu leikskólans eftir útboð og því hafi þurft að brjóta verkið upp í margar einingar. Á endanum hafi 13 verktakar komið þar að.

Segir sveitarstjórn hafa verið upplýsta um gang mála
En minnihlutinn gagnrýnir einnig að upplýsingar til sveitastjórnar um kostnað hafi verið mjög óljósar á meðan á framkvæmdum stóð. „Það er ekki þannig að þau hafi ekki verið upplýst,“ segir Þorsteinn.

„Þetta kemur fram í skýrslum sveitarstjóra á sveitarstjórnarfundum. Það hafa verið lögð fram ótal minnisblöð og þetta hefur veri rætt í sveitarstjórn. Þannig að sannarlega hafa verið veittar þarna upplýsignar.

En örugglega í einhverjum tilfellum hefði kannski mátt gera einhversstaðar eitthvað betur.“

Heimild: Ruv.is