Fyrstu kaupendum fjölgar Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2008 tekið saman tölur yfir hlutfall fyrstu kaupendur íbúða. Hlutfall þeirra hefur aldrei verið hærra en nú.
Á 2. ársfjórðungi 2019 var hlutfallið 27,5% og á fyrsta ársfjórðungi var það 25,8%. Þetta hlutfall fór lægst í 5,1% á árinu 2009 og fyrir fimm árum var það á bilinu 15 til 19%.
Síðan þá hefur þetta hlutfall hækkað hægt og rólega og stendur nú í 27,5% eins og áður sagði.
Una Jónsdóttir, hagfræðingur á Hagfræðideild Landsbankans, segir að þessi þróun sé áhugaverð en þó verði að setja ákveðinn fyrirvara við tölurnar.
„Þessi gögn ná ekki mjög langt aftur og gögnin telur þá sem fá afslátt af stimpilgjöldum sem fyrstu kaupendur,“ segir Una. „Það geta verið dæmi um að þetta sé ekki endilega ungt fólk, sem er í fyrsta skiptið að fara út á fasteignamarkaðinn.
Þetta geta til dæmis verið eldri hjón, þar sem annar aðilinn hefur aldrei verið þinglýstur eigandi. Ef sá aðili kaupir sér fasteign þá fær hann afslátt af stimpilgjöldum, þannig að það er vissulega hvati fyrir þetta fólk að nýta sér þessa leið.
Ég veit samt ekki hvort þetta veldur mikilli skekkju í gögnunum og þrátt fyrir að einhver hópur eldra fólks sé talinn með þá er þróunin samt sem áður áhugaverð.“
Heimild: Vb.is