Framkvæmdir að verðmæti um 132 milljarða króna eru kynntar á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem fram fer á Grand Hótel Reykjavík í dag.
Fulltrúar tíu opinberra stofnana og fyrirtækja kynna áætlaðar framkvæmdir á árinu.
Framkvæmdir ársins eru um fjórum milljörðum dýrari en þær sem kynntar voru á sama þingi í fyrra.
Í ár er Vegagerðin með hæstar áætlaðar framkvæmdir, að upphæð nærri 39 milljarða króna, tæpum 17 milljörðum meina en í fyrra.
Isavia gerir ráð fyrir framkvæmdum fyrir 21 milljarð króna og Reykjavíkurborg fyrir tæplega 20 milljarða.
Þá er tekið fram í fréttatilkynningu Samtaka iðnaðarins að í fyrsta sinn séu sérstaklega kynntar verklegar framkvæmdir vegna Landspítala. Þær eru áætlaðar nema um 12 milljörðum.
Auk þess kynna Landsnet, Framkvæmdasýslan, Veitur, Orka Náttúrunnar, Landsvirkjun og Faxaflóahafnir fyrirhugaðar framkvæmdir á Útboðsþinginu í dag.
Heimild: Ruv.is