Samkvæmt nýju deiliskipulagi fyrir Jökulsárlón mun verða heimilt að reisa þar byggingar að samtals 5.330 fermetrum.
Allt að 680 bílastæði verða í boði auk sérstakra stæða fyrir rútur og stærri bíla. Vagnar aka fólki hring frá bílastæði að lóni. Skipulagið miðast við færslu hringvegarins og nýja brú nær lóninu.
Um 850 þúsund manns lögðu leið sína að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi á árinu 2018. Spáð er að sú tala fari í 1,5 milljónir. Slíkum fjölda fylgir þung umferð og er það sagt einkenna ástandið á staðnum.
„Bílum er lagt mjög nærri jökullóninu þar sem núverandi aðstaða er staðsett og einnig í fjörunni sunnan þjóðvegar og utanvegaakstur hefur myndað slóða og rask,“ segir í greinargerð með nýju deiliskipulagi fyrir Jökulsárlón sem bæjarstjórn Hornafjarðar hefur samþykkt að sett verði í auglýsingu.
Fram kemur að skipulagið miði við að í framtíðinni eigi að færa hringveginn 200 til 350 metra ofar í landið um nýja brú.
„Í nýju deiliskipulagi er þjónustumiðstöð færð enn lengra til austurs frá Jökulsárlóni en í gildandi deiliskipulagi og almenn umferð bíla ekki heimiluð nærri bökkum lónsins,“ segir í greinargerðinni.
Gert er ráð fyrir stærsta uppbyggingarsvæðinu norðan og austan við brúna en einnig tveimur byggingarreitum neðan vegar beggja vegna brúarinnar auk lítils byggingarreits vestan útfalls lónsins og ofan vegar. Bre
Á þessum reitum verður hægt að reisa byggingar sem samanlagt geta orðið 5.330 fermetrar samkvæmt skipulaginu.Va
Fyrirferðarmest verður Þjónustumiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs sem getur orðið allt að 1.800 fermetrar. Þjónustubyggingar, aðstaða fyrir gestamóttöku, starfsemi ferðaþjónustuaðila, veitingarekstur, verslun, og starfsfólk getur orðið á allt að 1.300 fermetrum.
Ferðaþjónustufyrirtæki fá síðan 800 fermetra undir þaki fyrir sig, 500 fermetrar eru undir starfsmenn og fyrirtæki í bátasiglingum fá 250 fermetra.
Til viðbótar þessu er gert ráð fyrir þremur salernishúsum, sérstakri aðstöðu fyrir landvörð og mannvirki fyrir fráveitu og fyrir véla- og viðgerðarþjónustu.
„Gerð verður greiðfær braut á gamla vegslóða þar sem farþegavagnar geta ekið hringferð frá aðalþjónustusvæði að bátaaðstöðu og gestastofu við Lónið. Hringurinn er um 1,5 kílómetra langur og verður einstefna að megninu til,“ segir í greinargerðinni um aðgengi ferðamanna. Byggja á göngubrú ofan við akstursbrúna.
„Sú brú tengir bílastæði, tengir vestur- og austurbakka Jökulsár og dreifir álagi vegna bílastæðaþarfar, sem og að auka upplifunar- og útivistargildi svæðis.“
Samkvæmt umhverfismati verða áhrif nýja deiliskipulagsins neikvæð á ásýnd landslags, jarðmyndanir, hljóðvist og lífríkið. Áhrifin á grunnvatn og verndargildi eru óveruleg.
Heimild: Frettabladid.is