Home Fréttir Í fréttum Segir sveitarfélög á Norðurlandi vilja raflínur í jörðu

Segir sveitarfélög á Norðurlandi vilja raflínur í jörðu

150
0
Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV

Sveitarstjórinn í Hörgársveit segir að RARIK og Landsnet verði að fá aukið fé til framkvæmda úr ríkissjóði til að byggja upp raforkukerfi sem standist verstu veður.

<>

Sveitarfélög á Norðurlandi hyggist þrýsta verulega á að það gangi eftir. Loftlínur sem gáfu sig í Hörgárdal verða lagðar í jörðu.

Dreifingu rafmagns í Hörgársveit hefur að stórum hluta verið komið í jörðu. Eftir voru tvær loftlínur fyrir hringtengingu rafmagns í Hörgárdal og Öxnadal þar sem víðtækt rafmagnsleysi varð í óveðinu í desember.

Tvær loftlínur gáfu sig og hringtenging brást
„Og það vildi svo óheppilega til að þær fóru báðar,“ sagði Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, á Morgunvaktinni á Rás 1.

„Þó að ekki nema önnur hafði haldið, þá hefði þetta rafmagnsleysi aldrei komið til í þetta langan tíma.

Því það var búið að hringtengja kefið yfir Hörgána, þannig að það hefði verið hægt að halda uppi rafmagni ef bara önnur línan hefði hangið inni.“

Línurnar lagðar í jörðu eins fljótt og auðið er
Sveitarstjórnin sendi frá sér harðorða ályktun og mótmælti öllum áformum um framtíðarviðgerðir á þeim línum sem þarna brugðust. Þeim verði komið í jörðu eins fljótt og auðið er. Og fundir með forstjóra RARIKs um sama mál báru árangur, segir Snorri.

„Það verður ekki farið í að reyna að laga þessar línur frekar. Heldur verður farið í það núna strax í vetur að leggja strengi í jörð, ef nokkur möguleiki er. Allavega öðrum megin og í sumar verður þá farið í það hinum megin að taka niður loftlínuna og setja jarðstrengi þar.“

Raforkufyrirtækin verði að fá fé til framkvæmda
Þetta staðfestir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIKs. Og hann segir í undirbúningi áætlun um enn frekari aðgerðir á Norðurlandi við að leggja jarðstrengi í stað loftlína sem gáfu sig í óveðrinu.

Snorri segir að sveitarfélög á Norðurlandi hyggist þrýsta verulega á að það gangi eftir. „Að ríkisvaldið sjái til þess að fyrirtækin fái fé til framkvæmda. Og menn verða þá bara aðeins, á meðan, að slaka á einhverjum arðsemiskröfum um það að þessi fyrirtæki séu að greiða hundruðir milljóna í ríkissjóð, akkúrat kannski á meðan að menn eru að vinna sig í gegnum það.“

Heimild: Ruv.is