Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 ásamt þriggja ára áætlun 2021-2023 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar fyrir áramót.
Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu af rekstri A- og B-hluta á næsta ári um 106 milljónir króna samanlagt. Bæjarstjórn samþykkti jafnframt óbreytta álagningarprósentu fasteignaskatts, það er 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 1,6% af fasteignamati annars húsnæðis.
Einnig samþykkti bæjarstjórn óbreytta útsvarsprósentu, 14,52%, auk breytinga á gjaldskrá sem gerir almennt ráð fyrir 2,5% hækkun á árinu. Tekjumörk afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega voru hækkuð um 10%.
Fræðslu-og uppeldismál fyrirferðarmikil
Á árinu 2020 er gert ráð fyrir framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins fyrir tæplega 4,4 milljarða króna. Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að fræðslu- og uppeldismál séu sérstaklega fyrirferðarmikil í framkvæmdayfirliti á árinu.
Gert er samtals ráð fyrir 873 milljónum króna vegna endurbóta á Glerárskóla, byggingar leikskóla við hlið Glerárskóla, undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðra endurbóta á Lundarskóla ásamt smærri framkvæmdum.
Hjá eignasjóði gatna eru áætlaðar 784 milljónir króna vegna nýbygginga gatna, malbikunar, endurbygginga og viðhalds. Ríflega helmingur af kostnaði við framkvæmdir næsta árs fellur undir fyrirtæki í B-hluta.
Áætlað er að verja 1,5 milljörðum í framkvæmdir á vegum Norðurorku, það er einkum vegna heita- og kaldavatnskerfis og fráveitu. Gert er ráð fyrir 245 milljónum króna í félagslegar íbúðir og 130 milljónum vegna þjónustukjarna í Klettaborg sem verður tekinn í notkun um mitt næsta ár.
Hjá Hafnasamlagi Norðurlands eru áætlaðar 436 milljónir króna í hafnarframkvæmdir, segir á vef Akureyrarbæjar.
Alls er gert ráð fyrir 150 milljónum kr. í nýtt þjónustuhús á siglingasvæði Nökkva; 75 milljónum kr. á þessu ári og 75 milljónum kr. á árinu 2021. Hefja á framkvæmdir á árinu á viðbyggingu við Lögmannshlíð þar sem gert er ráð fyrir 60 íbúðum fyrir aldraða.
Fara 20 milljónir í framkvæmdir á árinu en áætlaðar eru alls 380 milljónir í verkefnið á árunum 2020-2023. Þá er gert ráð fyrir 10 milljónum kr. í frágang brekku og lóðar við Listasafn Akureyrar.
Heimild: Vikudagur.is