„Við höfum áhyggjur af þessu sem störfum í þessum málum,“ segir Kristín Martha Hákonardóttir, byggingarverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Verkís, í samtali við mbl.is vegna stöðu ofanflóðavarna í landinu en hún er sérfræðingur á því sviði.
Tilefnið eru snjóflóðin sem féllu seint í gærkvöldi á Flateyri og í Súgandafirði.
Vekur hún athygli á áskorun sem send var ríkisstjórn Íslands í maí á síðasta ári af sérfræðingum á þessu sviði auk fulltrúa sveitarfélaga sem hagsmuna hafa að gæta í þessum efnum þar sem hvatt var til þess að ljúka uppbyggingu ofanflóðavarna sem fyrst en upphaflega var gert ráð fyrir því að þeim áfanga yrði náð 2010.
„Fjárhagslega og tæknilega virðist raunhæft að ljúka þeim framkvæmdum sem eftir standa fyrir árið 2030 ef fljótlega verður hafist handa við framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið.
Samtímis yrði unnið að undirbúningi framkvæmda sem skemmra eru á veg komnar í samvinnu sveitarfélaganna sem um ræðir og annarra stjórnvalda,“ segir enn fremur í áskoruninni. Hægagangur í þessum efnum bjóði heim slysum í þéttbýli.
Hægt að ljúka við varnargarða á næstu tíu árum
„Það sem vakti fyrir mér var aðallega að koma þessu á framfæri aftur þar sem þetta virðist ekki hafa ýtt nægjanlega mikið við fólki, alla vega ekki miðað við síðustu fjárlög,“ segir Kristín.
Enn sé hins vegar hægt að breyta um stefnu í þeim efnum. Nægir fjármunir séu til staðar til þess að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum á næstu tíu árum.
„Það mun skila sér í samfellu í þekkingu og samfellu í hönnun líka. Tæknilegum atriðum sem skipta máli. Svo það verði ekki allir dauðir sem komu að þessum málum,“ segir hún enn fremur. Snjóflóðagarðarnir hafi sannað gildi sitt.
Bæði í gærkvöldi og áður. „Mörg flóð hafa fallið á Flateyrargarðinn og raunar varnargarða um allt land.“
Minnir hún á að Ofanflóðasjóður hafi verið stofnaður 1997 til þess að ljúka mætti uppbyggingu ofanflóðavarna hratt. Hann hafi hins vegar verið nýttur í seinni tíð sem einhvers konar hagstjórnartæki og framkvæmdir látnar ráðast af stöðu mála í hagkerfinu hverju sinni og fyrir vikið hafi uppbygging varna dregist úr hófi.
Heimild: Mbl.is