„Fimm nýjar íbúðir þykir í stóra samhenginu kannski ekki ýkja mikið en víða á landsbyggðinni geta þær bylt húsnæðismarkaðnum á viðkomandi svæði,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem undirritaði í dag ásamt Kristjáni Sturlusyni, sveitarstjóra Dalabyggðar, viljayfirlýsingu um aðkomu stjórnvalda að byggingu fimm leiguíbúða í Búðardal.
Fyrsta skóflustungan var tekin í dag í Búðardal en þar hefur nánast ekkert verið byggt af nýju íbúðarhúsi í hartnær áratug, segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu. Þó hafi verið mikill skortur á íbúðarhúsnæði þar í lengri tíma.
Dalabyggð er eitt þeirra sveitarfélaga sem valið var til þátttöku í landsbyggðarverkefni Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn leggur sveitarfélaginu til einnar milljónar króna styrk til verkefnisins.
Þá leggi sjóðurinn fimm milljóna króna viðbótarframlag til byggingar íbúðanna vegna þess að á svæðinu hafi verið skortur á leiguhúsnæði og bygging íbúða verið í lágmarki vegna misvægis á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðahúsnæðis.
Ráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á almennum íbúðum sem tryggir að hægt verði að veita slíkt viðbótarframlag á fleiri landsvæðum þar sem misvægi byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúða er til staðar.
Heimild: Ruv.is