Home Fréttir Í fréttum Kim fékk átta ára dreng til að hefja flugvallagerðina á Grænlandi

Kim fékk átta ára dreng til að hefja flugvallagerðina á Grænlandi

213
0
Kim Kielsen mætir á vettvang ásamt drengnum, sem horfir til baka á Nuuk-flugvöll. Núverandi braut er aðeins 950 metra löng en leggja á nýja 2.200 metra braut við hlið hennar. Mynd/Naalakkersuisut.

Flugvallagerðin er hafin á Grænlandi, mesta innviðauppbygging í sögu þessa næsta nágrannalands Íslands.

<>

Kim Kielsen forsætisráðherra sagði hana lykil að framtíð Grænlendinga um leið og hann fékk átta ára dreng til að hjálpa sér að hleypa af fyrstu sprengingu.

Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Forsíður grænlenskra fréttamiðla lýsa því vel hvað þetta þykja stór tímamót í sögu Grænlands en Kim þótti við hæfi að fá fulltrúa ungu kynslóðarinnar, drenginn Inooraq, til að hleypa verkinu af stað í gær.

Kim Kielsen ávarpar viðstadda. Drengurinn Inooraq við hlið hans. Mynd/Naalakkersuisut.

„Þetta eru innviðir sem munu gagnast borgurum Grænlands í framtíðinni, en mikilvægara er að tryggja betri aðstæður fyrir börnin okkar, framtíð okkar, þar sem það eru börnin sem munu nota flugvellina,“ sagði Kim Kielsen.

Hann bað síðan hinn átta ára Inooraq að þrýsta með sér á hnappinn, sem hleypti sprengingunni af stað.

Séð yfir framkvæmdasvæðið í Nuuk þar sem danski verktakinn Munck er byrjaður að sprengja fyrir nýrri flugbraut.
Mynd/Naalakkersuisut.

Þar með er flugvallagerðin hafin í Nuuk en þar verður lögð ný 2.200 metra flugbraut, nægilega löng til að taka við stórum stórum þotum. Það sama verður gert í bænum Ilulissat við Diskó-flóa.

Við bæinn Qaqortoq á Suður-Grænlandi verður lagður innanlandsvöllur með 1.500 metra braut. Flugvellirnir eiga allir að verða tilbúnir fyrir árslok 2023. Jafnframt eru uppi áform um gerð átta annarra nýrra innanlandsflugvalla.

Flugvellirnir í Nuuk og Ilulissat fá báðir 2.200 metra flugbraut en auk þess verður nýr flugvöllur með 1.500 metra braut lagður í Qaqortoq.
Grafík/Hafsteinn Þórðarson.

„Það er nauðsynlegt skref sem við stígum hér, stórt skref í sögu lands okkar,“ sagði Kim og sagði sprenginguna marka spennandi framtíð.

„Nýju Atlantshafsflugvellirnir verða nauðsynleg miðstöð innviða Grænlands í framtíðinni og munu gegna lykilhlutverki í að tengja byggðir landsins saman og tengja landið við umheiminn,“ sagði leiðtogi Grænlendinga.

Heimild: Visir.is