Home Fréttir Í fréttum Nýbygging samþykkt við Ás, dvalar og hjúkrunarheimili í Hveragerði

Nýbygging samþykkt við Ás, dvalar og hjúkrunarheimili í Hveragerði

227
0
Mats Wibe Lund tók myndina. Hveragerði.is

Bæjarráð fagnar áformum um nýbyggingu við Hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði.
Að þessu markmiði hefur verið ötullega unnið að undanförnu og hafa viðbrögð heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis verið til fyrirmyndar. Fyrir það ber að þakka.

<>

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur í samráði við fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, samþykkt tillögu um að byggt verði nýtt 18 rúma hjúkrunarheimili í Ási, Hveragerði.

Að þessu máli hefur verið unnið í þó nokkurn tíma í góðu samstarfi bæjarfélagsins og forsvarsmanna Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss hér í Hveragerði. Niðurstaðan liggur nú fyrir og ljóst er að ráðist verður í verkið í samstarfi ríkis og Hveragerðisbæjar sem byggja munu húsið og eiga það, 85% ríkið og 15% bærinn.

Nýja heimilið verður byggt gegnt Bæjarási og hjúkrunarheimilinu, norðan Hverahlíðar og þurfa nokkur eldri hús að víkja vegna þess. Stefnt er að því að tengja eldra hjúkrunarheimili við það nýja með göngum undir Hverahlíð.

Líklega hefjast framkvæmdir um miðbik næsta árs en framkvæmdatími er áætlaður um tvö ár. Heildarkostnaður kemur til með að nema um það bil 800 milljónum króna.

Auk þessa hafa ráðherrarnir samþykkt að endurbæta gamla hjúkrunarheimilið sem tekið var í notkun 1998, með þeim hætti að tvíbýlunum sem þar eru verður breytt í einbýli með sér baðherbergi.

Þannig endar það hús líklega með 17 einbýli, öll með sér baðherbergi.
Það er full ástæða til að fagna þessari ákvörðun og þakka ráðherrum kærlega fyrir þennan stórhug og forsvarsmönnum Áss fyrir það framtak sem þeir hafa sýnt í þessu máli.

Á fundi bæjarráðs þann 19. september s.l. var eftirfarandi bókað vegna málsins:
Bæjarráð fagnar áformum um nýbyggingu við Hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði. Að þessu markmiði hefur verið ötullega unnið að undanförnu og hafa viðbrögð heilbrigðisráðuneytis og fjármálaráðuneytis verið til fyrirmyndar.

Fyrir það ber að þakka. Í framhaldi af þessari ákvörðun mun verða ráðist í formlega samninga sem byggja á þeim tillögum sem þegar hafa verið kynntar bæjarráði, með það að markmiði að framkvæmdir geti hafist hið fyrsta.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri

Heimild: Hveragerði.is