Það hefði aldrei átt að leyfa byggingu hótels ofan á Víkurkirkjugarði í miðborg Reykjavíkur:
Það stríðir gegn lögum um minjavernd og lögum kirkjugarða. Þetta segir Hjörleifur Stefánsson arkítekt.
Hjörlefur segir að menn hafi vel vitað af Víkurkirkjugarði áður en leyfi til þess að reisa hótel ofan á honum hafi verið veitt.
Sumir hafi þó látið eins og það hafi ekki verið vitað og að við uppgröft hafi stórkostlegir hlutir verið uppgötvaðir.
Hjörlefur bendir á að samkvæmt lögum um menningarminjar og lögum um kirkjugarða sé hreinlega bannað að byggja í kirkjugarði. Víkurkirkjugarður sé einn af minjastöðum landsins og njóti friðhelgi.
Hann rekur að upp úr 1960 hafi Landsíminn ætlað að fá að byggja í kirkjugarðinum, alveg út að Kirkjustræti. Þáverandi biskup og þjóðminjavörður lögðust gegn því og ríkisstjórnin bannaði framkvæmdina, vegna þess einfaldlega að þarna væri kirkjugarður.
Hins vegar var fallist á litla byggingu út í kirkjugarðinn með þeim rökum að knýjandi þörf væri á að Landsíminn yki tækjakost sinn og þyrfti til þess aukið húsrými.
Núna, rúmum 50 árum síðar, sé hins vegar búið að heimila að byggja hótel ofan á kirkjugarðinn, þó enga samfélagslega nauðsyn beri til og þvert gegn gildandi lögum.
Hjörleifur segir þetta vekja furðu og engu líkara en að borgaryfirvöld hafi hreinlega gleymt því að þarna hafi verið kirkjugarður.
Hjörlefur Stefánsson og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOMOS voru gestir Morgunvaktarinnar á Rás 1, en í dag verður haldið málþing í Norræna húsinu um verndun menningarminja í þéttbýli.
Heimild: Ruv.is