Kæru Ragnheiðar Elínar Árnadóttur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að heimila niðurrif Sundhallar Keflavíkur og að byggð verði þrjú fjölbýlishús á svæðinu var vísað frá af Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Kærunni er vísað frá á þeim forsendum að kærandi búi of langt frá umræddu svæði. „Kærandi er búsettur í níu hundruð metra fjarlægð frá umræddri sundhöll sem fjarlægja á samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.
Verður henni af þeim sökum því ekki játuð kæruaðild á þeim grundvelli að grenndarhagsmunir hennar skerðist,“ segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.
Þá kemur fram í úrskurðinum að Hollvinasamtök Sundhallar Keflavíkur geti ekki átt aðild að kærumáli þessu án þess að eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að jafnaði séu skilyrði aðildar á þessu sviði, en í kæru Ragnheiðar Elínar segir að hún sé formaður Hollvinasamtaka Sundhallarinnar í Keflavík, sem barist hafi fyrir því að húsið fái að standa áfram.
Heimild:Sudurnes.net