Home Fréttir Í fréttum Nýtt hverfi rís nú innst við Elliðaárvog

Nýtt hverfi rís nú innst við Elliðaárvog

413
0
Kristján Baldursson hefur unnið að verkefninu í Trilluvogi ásamt samstarfsmönnum sínum, þeim Guðbjörgu G. Sveinbjörnsdóttur og Garðari Hólm Birgissyni. Eva Björk Ægisdóttir/Vb.is

Nýtt hverfi rís nú innst við Elliðaárvog og hefur hverfið fengið nafnið Vogabyggð. Fasteignasalan Trausti er meðal þeirra fasteignasala sem er með eignir í hverfinu til sölu og hefur sala þeirra farið vel af stað að sögn Kristjáns Baldurssonar, eiganda fasteignasölunnar.

<>

„Við erum að selja eignir í götu sem heitir Trilluvogur og íbúðirnar þar hafa selst hratt. Við vorum með 46 eignir til sölu í Trilluvogi og á þeim tíu dögum sem þær hafa verið í sölu hafa 20 eignir selst.

Það telst nú bara ansi gott og það gefur ekki til kynna að það séu einhver rólegheit á fasteignamarkaði, en maður hefur lesið það víða undanfarið að fasteignamarkaðurinn sé að kólna.”

Eins og Kristján kemur inn á að ofan þá hefur umræðan í þjóðfélaginu verið á þá leið að fasteignamarkaðurinn sé að kólna. Bent hefur verið á að ekki sé verið að sinna þörfum markaðarins – og meðal annars virðist vera mikið af óseldum eignum í miðbænum. Kristján telur að fasteignamarkaðurinn sé í góðu jafnvægi.

„Salan hjá okkur hefur gengið mjög vel í þessum venjulegu eignum og sömuleiðis hafa þessi verkefni þar sem við erum að selja nýjar íbúðir einnig gengið mjög vel.

Við höfum til dæmis tekið þátt í mjög vel heppnuðum verkefnum í Jaðarleiti og Boðaþingi. Miðbærinn er orðinn mjög þéttur og ég tel að það séu miklir möguleikar í nærumhverfi miðbæjarins, eins og til dæmis í Vogabyggð.

Mér skilst að það gangi nokkuð erfiðlega að selja stærri eignir í miðbænum. Umræða í fjölmiðlum um meinta laka sölu í miðbænum hefur svolítið litað umræðuna um stöðu fasteignamarkaðarins almennt, en víða eru í gangi verkefni sem ganga ljómandi vel.”

Jákvætt að stjórnvöld sýni lit
Fyrr í þessum mánuði náðu aðilar vinnumarkaðarins loks samkomulagi um nýja kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Meðal efnis samningsins eru vissar stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld ætla að ráðast í á húsnæðismarkaði.

Nokkur óvissa ríkir þó enn um endanlegar útfærslur þessara aðgerða stjórnvalda.

Kristján telur að aðkoma stjórnvalda í kjarasamningunum varðandi húsnæðismarkaðinn hafi góð áhrif, þar sem það sé jákvætt fyrir markaðinn að stjórnvöld sýni smá lit og komi með eitthvað inn á markaðinn sem geti komið fólki til góða.

„Jafnvel þó að það eigi eftir að koma betur í ljós hvernig þetta verður útfært og hvað þetta nákvæmlega verður, þá fundum við fyrir því eftir að gengið var frá kjarasamningum að það létti yfir öllum markaðnum.

Á meðan óvissuástand stóð yfir vegna kjarasamninganna þá fundum við fyrir því að fólk hélt frekar að sér höndum en um leið og kjarasamningar náðust þá lifnaði aftur yfir markaðnum.”

Heimild: Vb.is