Bjarg íbúðafélag byggir fyrir 40 milljarða króna til ársins 2022. Framkvæmdir við byggingu 460 íbúða eru hafnar eða við að hefjast. Að auki eru 440 í hönnunarferli. Flestar verða tilbúnar á næsta ári og eru langflestar á höfuðborgarsvæðinu.
Bjarg íbúðafélag er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð af ASÍ og BSRB. Markmið með starfseminni er að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að íbúðum til langtímaleigu, að norrænni fyrirmynd.
Samkvæmt upplýsingum frá félaginu nemur kostnaður við uppbyggingu íbúða til ársins 2020 alls um 40 milljörðum. Af þeirri upphæð eru 12 milljarðar fjármagnaðir með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum.
Meðalkostnaður við byggingu hverrar íbúðar er um 33 milljónir á höfuðborgarsvæðinu en um 23 á landsbyggðinni. Íbúðirnar eru eins til fimm herbergja og eru á annað þúsund manns á biðlista eftir þeim en leiguverð á tveggja herbergja íbúð verður á bilinu 100 til 140 þúsund. Fyrstu íbúðirnar verða teknar í notkun í sumar.
Heimild: Ruv.is