Byggja þarf um 1830 íbúðir á hverju ári á tímabilinu 2019-2040 til að vinna upp óuppfyllta íbúðaþörf og mæta undirliggjandi fjölgun heimila á tímabilinu. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar skýrslu frá hagdeild Íbúðalánasjóðs, sem ber heitið Íbúðaþörf 2019-2040.
Þar segir jafnframt að um nýliðin áramót hafi áætlaður íbúðaskortur numið fimm til átta þúsund íbúðum – „til að rúma jafnvægisfjölda heimila miðað við undirliggjandi heimilasamsetningu.
“ Engu að síður sé útlit fyrir það að þessi óuppfyllta íbúðaþörf minnki á næstu árum, ekki síst í ljósi þess að á árunum 2019 til 2021 er talið að byggðar verði um 3300 íbúðir að meðaltali á hverju ári.
Þriggja herbergja eftirsóttar
Þessar spár eru þó háðar ákveðinni óvissu, ekki síst er lýtur að lýðfræðilegri þróun. Í skýrslunni hagdeildarinnar segir að aldurs- og búskaparsamsetning þjóðarinnar muni þannig hafa mikil áhrif á hvers konar íbúðum þurfi helst að fjölga.
„Samkvæmt grunnsviðsmynd mun helmingur allrar undirliggjandi fjölgunar heimila til ársins 2040 koma til vegna fjölgunar einstaklingsheimila en einstaklingsheimili eru að jafnaði í minni íbúðum en önnur heimili.
Niðurstöður úr viðhorfskönnunum benda til þess að sérstök þörf gæti myndast á þriggja herbergja íbúðum á næstu árum,“ segir á vef Íbúðalánasjóðs.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Íbúðaþörf 2019-2040
Heimild: Visir.is