Home Fréttir Í fréttum Byrjað að rukka í Vaðlaheiðargöng: „Þetta er nútíminn“

Byrjað að rukka í Vaðlaheiðargöng: „Þetta er nútíminn“

209
0
Mynd: Vísir/Tryggvi

Formleg gjaldtaka í Vaðlaheiðargöng hófst á miðnætti í gær. Búið er að selja 55 þúsund ferðir í gegnum göngin frá því að sala á áskriftum og ferðum hófst.

<>

Göngin voru opnuð fyrir umferð 21. desember og var frítt í göngin fyrst um sinn, þangað til í dag. Svo virðist sem að Eyfirðingar og nærsveitungar hafi nýtt tækifærið yfir hátíðirnar til þess að skoða göngin án þess að þurfa að greiða fyrir ferðina.

„Frá því að við opnuðum 21. hafa verið um það bil tvö til þrjú þúsund bílar á dag sem er langt umfram það sem eðlilegt er á þessum árstíma,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.

Á ýmsu hefur gengið við gangagerðina en upphaflega var gert ráð fyrir að göngin yrðu opnuð á seinni hluta árs 2016. Nú er hins vegar allt svo gott sem klappað og klárt og tekjur farnar að koma í kassann svo standa megi undir kostnaði við göngin.

„Þetta er mjög gott að geta hafið gjaldtöku þótt það sé ekki með formlegum hætti eða einhverri flugeldasýningu. Það er allavega búið að opna núna og núna sjáum við hvernig landinn mun taka þessu,“ segir valgeir.

Sala á ferðum í göngin fer alfarið fram á netinu og sjálfvirkt tölvukerfi sér um að innheimta veggjöldin. Búið er að skrá í kringum 1.600 bíla í greiðslukerfið frá því að opnað var fyrir skráningu og alls hafa verið seldar um 55 þúsund ferðir.

„Það hafa margir hringt og spurt: „Af hverju bara á netinu? eða af hverju þeir geti ekki fengið að tala við einhvern og það er allur gangur á því en þetta er nútíminn. Þetta er það sem mun koma skal og er þegar á mörgum stöðum í heiminum.“

Heimild: Visir.is