Home Fréttir Í fréttum Ósammála um hvar samgöngumiðstöð eigi að vera

Ósammála um hvar samgöngumiðstöð eigi að vera

102
0
Mynd: rúv
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, lýsti efasemdum með staðsetningu nýrrar samgöngumiðstöðvar sem fyrirhugað er að reisa á BSÍ-reitnum.
Betur færi að reisa hana miðsvæðis, sem væri þá frekar á Kringlusvæðinu. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði miðstöðina lykilatriði í leiðakerfi borgarlínu og strætó til framtíðar.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, lagði áherslu á að miðstöðin verði almenningsrými og sagði flugvallastemningu vera í tillögum um hana.

Ný samgöngumiðstöð og tillaga samkeppni um uppbyggingu á BSÍ-reitnum var fyrst á dagskrá borgarstjórnar á fundi hennar í dag.

<>

Lykilatriði í leiðakerfi borgarlínu

„Samgöngumiðstöð á umferðarmiðstöðvarreit er lykilatriði í leiðakerfi borgarlínu og leiðarkerfi strætó til framtíðar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í upphafi umræðu í borgarstjórn síðdegis um tillögu um samkeppni um uppbyggingu á BSÍ-reit. „Þannig að við þurfum að halda vel á þessu máli til þess að það hafi þann framgang sem þarf fyrir framtíð góðra, skilvirkra og grænna samgangna í Reykjavík og landinu öllu.“

Dagur segir að það eigi eftir að kanna í hermilíkani umferð í nágrenni samgöngumiðstöðvar á annatímum og fullvinna samkeppnislýsingar, bæði fyrir hugmynda- og hönnunarsamkeppni á samgöngumiðstöðinni og næsta nágrenni hennar. Einnig eigi eftir að svara því hver það verður sem reisir samgöngumiðstöðina og hver kemur til með að reka hana.

Eigi lítið skylt við Kringluna

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, lýsti áhyggjum af framtíðar rekstrarfyrirkomulagi samgöngumiðstöðvarinnar og brýndi mikilvægi þess að þar verði rými fyrir almenning. Með tillögunni komi fram að lagt sé til að óháður aðili eða fyrirtæki sjái um reksturinn. Sanna velti fyrir sér hvers vegna borgin tæki þetta ekki að sér. „Þarna er þá verið að gera ráð fyrir að einhver eða eitthvað fyrirtæki komi þarna inn og þarna er vísað í Kringluna sem fyrirmynd. Þannig að ég spyr: Af hverju eru fyrirtæki að koma að almannarými?“

Samgöngumiðstöð verði byggð í kringum almenningssamgöngur og þess vegna þurfi rýmið að þjóna þörfum allra. „Ég sé ekki alveg hvernig útfærsla á rými í líkingu við Kringluna sé það besta hér í þessari stöðu,“ sagði Sanna.

Ekkert verið ákveðið um rekstur miðstöðvarinnar

Dagur ítrekaði í svari sínu að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hver eigi eftir að reka samgöngumiðstöðina en þarna megi gera ráð fyrir að verði verslun og þjónusta. Óháður aðili vísi til þess að ekkert eitt fyrirtæki í samgöngugeiranum reki miðstöðina og leigi út rými. Þannig verði jöfnuð staða allra samgöngufyrirtækja í leiðinni. Dagur sagði að allir væru velkomnir á Hlemm og það væri tilgreint í kvöðum leiðusamningsins að strætófarþegar væru þar velkomnir.

Sanna sagði mikilvægt að það væri ljóst að fólk megi bíða inni á Hlemmi án þess að kaupa sér veitingar. Margir hefðu að hennar mati upplifað staðinn síður sem stað sem mætti bíða á eftir að mathöllin tók til starfa.

Vesturbærinn ekki í miðju höfuðborgarsvæðisins

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti SJálfstæðisflokksins, tók undir með borgarstjóra að reiturinn væri á einstaklega mikilvægum stað sem bjóði upp á mikla möguleika. Ekki síst fyrir minni íbúðir sem geti tengst stóru vinnustöðunum í nágrenninu, eins og háskólunum og Landspítalanum og fleiri stöðum. „Af þeim stöðum sem eru næst Vatnsmýrinni þá er þetta kannski verðmætasti og mikilvægasti bletturinn til þess að einmitt þétta á jákvæðan hátt. Þarna þarf ekki að rífa dýrar byggingar. Þarna er tiltölulega lítið nýtt land í dag. Þannig að þetta er hagstæður reitur til að byggja á öfugt við það sem við höfum séð hérna til dæmis þegar verið er að rífa dýrar byggingar hér miðsvæðis. Þarna er tækifæri til að byggja upp hagstætt húsnæði í göngufæri við mikilvæga staði og þess vegna komum við með tillögu bæði í kosningabaráttunni og hérna inn í borgarkerfið að byggja upp á BSÍ reitnum.“

BSÍ-reiturinn kunni að hafa verið í miðju borgarinnar í kringum árið 1940 en það sé hann ekki lengur. Almenningssamgöngumiðstöðvar hafi verið að þróast til austurs. „Lækjartorg var fyrst, síðan Hlemmur, svo kom Mjódd og þannig var Strætó að feta sig til austurs og nær Kópavogi með Mjódd. Þannig að við sjáum það að núna á að fara að bregða burt frá því að vera sem næst miðju og færa sig nokkuð langt frá miðju. Vesturbærinn er ekki miðja höfuðborgarsvæðisins. Það vita allir og þess vegna bentum við til dæmis á þann möguleika að byggja upp við Kringlusvæðið, nýta það. Það tengist Austur-Vesturbæ, Kópavogi, Hafnarfirði og fleiri svæðum vel. Og ekki er þetta nálægt Mosfellsbæ, það er líka ljóst.“

Eyþór segir að þarna sé verið að festa í sessi skipulagshalla með því að láta alla keyra niður í bæ og það sé ekki í samræmi við stefnuna í aðalskipulaginu. Nær væri að fikra sig austar með þjónustu og samgöngulausnir. Hann sagði of marga lausa enda vera í málinu og lýsti efasemdum um að stefnt væri í rétta átt.

Hagstætt byggingarland

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, fagnaði því að komið væri að því að hefja vinnu við samgöngumiðstöð. Í dag sé umferðarmiðstöðin eingöngu fyrir Kynnisferðir en með nýrri samgöngumiðstöð verði jafnt aðgengi fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, taldi að betra hefði verið að svara öllum spurningum sem væri ósvarað áður en byrjað væri á samgöngumiðstöð. Það væri skynsamlegra og ábyrgara. Þétt hafi verið á dýrari þéttingarreitum miðsvæðis sem hefði keyrt upp húsnæðis- og leiguverð í miðborginni í stað þess að reisa hagkvæmt húsnæði á landi í eigu borgarinar, BSÍ reitnum.

Þórdís Lóa sagði framtíðarkynslóðir vilja minni íbúðir og ungt fólk framtíðarinnar vilji ekki eyða peningum í óþarfa fermetra. Í nágrenni samgöngumiðstöðvar verði þétt allt í kring þegar litið sé til lengri tíma.

Baldur Borgþórsson, borgarfulltrúi Miðflokksins, tók undir margt í málflutningi Eyþórs og sagðist fagna áformum um samgöngumiðstöð sem festi Reykjavíkurflugvöll í sessi. Hann væri ekki að fara neitt á næstunni.

Borgarstjóri sagði að ákvæði í samningum ríkis og borgar hefði kveðið á um færanlegar byggingar við uppbyggingu á flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Þær yrðu til bráðabirgða á meðan flugvöllurinn væri þarna. Með því að samþætta þjónustu við flugfarþega við aðra samgönguþjónustu í samgöngumiðstöðinni væri verið að leysa úr þeim málum óháð staðsetningu flugvallarins. Ný samgöngumiðstöð geti meðal annars þjónað flugfarþegum á meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýri og eftir að innalandsflugið færist annað.

Heimild: Ruv.is