Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, þarf nú að taka afstöðu til þess hvort friðlýsa eigi torgið.
Minjastofnun sendi friðlýsingartillöguna í ráðuneytið fyrir ríflega viku síðan. Í umsagnarferli áður en gengið var frá tillögunni lagðist Reykjavíkurborg gegn friðlýsingu Víkurgarðs.
Allir fulltrúar í fornminjanefnd nema eini fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) samþykktu tillöguna og leggja til við ráðherra að gerð verði heildstæð skoðun á menningarminjum í miðbæ Reykjavíkur.
Fulltrúi SÍS tekur undir að kanna verði menningarminjar en leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að gera það í samvinnu við Reykjavíkurborg. Friðlýsingu Víkurgarðs verði einnig að gera í sátt við borgina.
Víkurgarður er forn kirkjugarður á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Síðasta gröfin var tekin í garðinum árið 1839 þegar Hólavallakirkjugarður var opnaður en síðasta kirkjan sem stóð við garðinn var rifin árið 1799.
Árið 1883 fékk Georg Shierbeck landlæknir að hefja grasaræktun í garðinum. Þar gróðursetti hann tré sem stendur enn í dag og er það eitt elsta tré á Íslandi.
Á sjöunda áratug síðustu aldar fékk Reykjavíkurborg grasagarðinn og síðan hefur þessi staður tekið miklum breytingum. Í dag er Víkurgarður Fógetatorg, borgartorg í miðborg Reykjavíkur, nefnt svo vegna styttunnar af Skúla fógeta Magnússyni.
Í beðum umhverfis garðinn má finna legsteina merkra manna sem jarðsettir voru í garðinum.
Í tillögunni sem fréttastofa hefur undir höndum segir meðal annars að búið sé að kanna allt svæðið innan lóðar hótelsins sem á að reisa á Landsímareitnum svokallaða. Kirkjugarðurinn forni náði yfir það svæði að hluta en þar eru engar grafir eftir. Þær hafa verið grafnar upp við fyrri húsbyggingar á lóðinni.
Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun sem kom að gerð tillögunnar, segir í samtali við fréttastofu að hún sé viss um að heillegar fornminjar leynist undir hellum borgartorgsins.
Spurð hvort möguleg friðlýsing muni hafa í för með sér breytingar á torginu eða þeirri starfsemi sem nærliggjandi veitingahús hafa haft á torginu, segir Agnes að það verði bara að koma í ljós.
Heimild: Ruv.is