Home Fréttir Í fréttum Afhenda sjúkrahótelið óklárað vegna ágreinings

Afhenda sjúkrahótelið óklárað vegna ágreinings

303
0
Sjúkrahótelið við Landspítalann. Mynd/NLSH

Nýi Landspítalinn, NLSH ohf., náði í dag samkomulagi við Munck Íslandi ehf. um verkskil á sjúkrahótelinu við Hringbraut. Framkvæmdum á sjúkrahótelinu og lóð þess er þó ekki lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýjum landspítala sem send var fjölmiðlum í dag.

<>

Ágreiningur hefur verið uppi milli NHLSH ohf. og Munck Íslandi ehf., um ýmis atriði er varða samningssamband þeirra, þ.á m. um tímasetningu umsaminna verkloka, skilaástand og ábyrgð á athugasemdum vegna verklokaúttektar, orsakir á töfum verksins, tafabætur, réttmæti reikninga, skaðabætur vegna tafa, verkgæði, annmarka á verkinu o.fl.

Í ljósi ágreinings óskaði NLSH ohf. eftir því í samræmi við heimildir sínar að verkskil og afhending verktaka á sjúkrahótelinu og þeirri lóð sem framkvæmdir lutu að samkvæmt verksamningi og útboðsgögnum, færi fram nú þegar.

„Nú í kjölfar afhendingar getur verkkaupi lokið því sem eftir stendur af verkframkvæmdum án þess að leysa þurfi fyrst úr fyrrgreindum ágreiningi aðila sem rekja má til samningssambands þeirra. Afhending sjúkrahótels og lóðar fer því fram frá og með 30. nóvember 2018,“ segir í tilkynningu.

NLSH ohf. og Munck Ísland ehf. hafa einnig gert með sér gerðardómssamning þar sem kveðið er á um að gerðardómur fjalli með bindandi hætti um öll þau ágreiningsefni sem risið hafa og rísa kunna vegna verksamningsins. Á þessu stigi munu aðilar ekki tjá sig opinberlega um kröfur sínar og mun kostnaðaruppgjör framkvæmdarinnar liggja fyrir að lokinni niðurstöðu gerðardóms.

„NLSH ohf. mun við yfirtöku á húsinu og lóð, ganga til fullnustu þeirra verka sem nauðsynlegt er til að koma húsinu í rekstrarhæft ástand, en stefnt er að því að allur innbúnaður verði kominn í húsið við árslok og húsið tilbúið til afhendingar til stjórnvalda í upphafi næsta árs.“

Heimild: Visir.is