Home Fréttir Í fréttum 200 milljarða borgarlína í Stafangri

200 milljarða borgarlína í Stafangri

198
0
Mynd: Bybanen i Bergen
Vinna er hafin við lagningu 50 kílómetra borgarlínu í Stafangri sem áætlað er að kosti rúma 200 milljarða króna. Upphaflega var áætlaður kostnaður 58 milljarðar.
Veggjöld eiga að fjármagna framkvæmdina að mestum hluta.

50 kílómetra borgarlína

Stefnt er að því að leggja borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Lögð verður sérleið fyrir strætisvagna sem geta ekið óhindrað óháð annarri umferð. Áætlað er að 80 til 90 milljarða þurfi til vegaframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Helmingur af þessari upphæð færi í lagningu borgarlínu.

<>

Á föstudaginn er stefnt að því að kynna heildarpakkann í vegaframkvæmdum bæði fyrir stjórnvöldum og sveitarfélögum. Það er einnig rætt um að innheimta veggjöld á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna framkvæmdirnar. Hugmyndin hefur hins vegar ekki verið útfærð.

Litið hefur verið til Stafangurs sem segja má að sé í svipuðum sporum. Þar er verið að leggja 50 kílómetra borgarlínu, Bussveien. Hún er hluti af heildarvegaframkvæmdum sem ganga undir nafninu Bymiljøpakken eða Umhverfisbæjarpakkinn. Framkvæmdirnar ná til Stafangurssvæðisins eða Norður-Jæren. Þar eru fjögur sveitarfélög, Stafangur, Sandnes, Sola og Randeberg. Auk borgarlínu er gert ráð fyrir ýmsum öðrum framkvæmdum sem miða að því að draga úr umferð, svo sem hjólastígum og bættum almenningssamgöngum.

Úr 58 milljörðum í 200

Upphaflega átti Umhverfisbæjarpakkinn, sem nær til ársins 2033, að kosta um 468 milljarða íslenskra króna en í vor kom í ljós að hann hefur hækkað í um

538 milljarða króna. Þetta hljómar kunnuglega og minnir á áætlunargerð hér heima. Kostnaðaraukningin skýrist meðal annars af því að dýrara hefur reynst að kaupa upp land sem hróflað verður við vegna framkvæmdanna.

Áætlaður kostnaður vegna borgarlínunnar í Norður-Jæren hefur ekki staðist. 2014 var áætlað hann yrði um 58 milljarðar. Tveimur árum síðar var verðmiðinn kominn í 145 milljarða. Í nóvember í fyrra hljóðaði áætlun upp á um 165 milljarða. Í vor var staðfest að áætlunin hljóði nú upp á 206 milljarða króna.

Mynd með færslu
 Mynd:
Veggjöldum mótmælt í Noregi.

Veggjöld upp á 365 milljarða

Það er gert ráð fyrir að um 160 milljarðar komi frá ríkinu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Norður-Jæren og Rogaland-fylki leggur til um 20 milljarða í formi niðurfellingar á virðisaukaskatti.

Veggjöldin eiga hins vegar að standa undir framkvæmdunum að stærstum hluta. Breytingar hafa verið gerðar á innheimtu veggjalda á Stafangurssvæðinu. 38 nýir innheimtustaðir voru opnaðir í október. Fram til 2033 eða á næstu 15 árum er gert ráð fyrir að innheimt verði veggjöld fyrir um 365 milljarða króna.

„Áður var það þannig að við greiddum 20 krónur í hvert skipti sem við keyrðum milli sveitarfélaganna,“ segir Frode Myrholt sem er formaður samtaka sem berjast gegn veggjöldum.

38 þúsund á mánuði

Samtökin buðu fram í Stafangri í síðustu sveitarstjórnarkosningum og fengu þrjá menn kjörna. Nú er stefnt að því að þau bjóði fram í fjölmörgum sveitarfélögum í kosningum sem verða á næsta ári. 20 norskar krónur eru um 290 íslenskar krónur.

Um 235 þúsund manns búa á svæðinu, þar af um 135 þúsund í Stafangri. 1. október var veggjaldakerfinu breytt. Nú er tekið gjald á 38 stöðum sem skiptast í fimm gjaldsvæði. Aðeins er innheimt þegar ekið er inn á svæðin og að hámarki er greitt fyrir 75 ferðir á mánuði. Miðað við 20% afslátt sem veglyklar gefa er veggjaldið á álagstíma, frá 7 til 9 á morgnana og 15 til 17 síðdegis, 515 krónur alla virka daga. Utan álagstíma er gjaldið með afslætti 257 krónur. Þetta á við um fólksbíla en gjaldið er hærra fyrir stærri bíla. Sá sem nær að greiða 75 sinnum, sem er þakið á mánuði, og ekur alltaf á álagstíma, greiðir yfir 38 þúsund krónur á mánuði.

„Þetta hefur því mikil áhrif á efnahag fólks og þess vegna er talsverð andstaða,“ segir Frode. Gjaldsvæði er í kringum miðbæinn í Stafangri, einnig í kringum stórt iðnaðarsvæði þar sem um 50 þúsund manns starfa, líka í kringum flugvöllinn á Sola, í kringum Sandnes og loks kringum annað iðnaðarsvæði. Frode segir að kerfið sé óréttlátt því greiðslurnar fari eftir því hvar fólk býr.

„Tilviljun ræður því hve hár reikningurinn er vegna þess að hann fer eftir því hvar þú vinnur og býrð,“ segir Frode. „Þess vegna teljum við að ríkið eigi að borga brúsann til að kerfið verði réttlátt.“ Eðlilegra sé að innheimt sé í gegnum tekjuskattskerfið.

Mynd með færslu
 Mynd:
Afar og ömmur styðja veggjöldin.

Afar og ömmur þakka fyrir veggjöldin

En það eru ekki allir á móti veggjöldum í Noregi. Afa og ömmu umhverfissamtökin hafa látið til sín taka. Þegar andstæðingar veggjalda hafa mótmælt víðs vegar í Noregi hafa afa og ömmu samtökin mætt á staðinn með borða þar sem veggjöldunum er fagnað. „Veggjöld, þúsund þakkir.

“ Gro Nytlander sem er varaformaður samtakanna segir að þeir sem mótmæli veggjöldum fái alltof mikla athygli. Tími sé kominn til að einhver sem er sáttur við aðgerðir til að draga úr umferð og mengun láti í sér heyra. Hún telur að það eigi að þakka stjórnmálamönnum fyrir að koma á veggjöldum. Margt fólk fagni því að dregið sé úr umferð í þéttbýli. Loftið verði hreinna og minna af svifryki. Minni hávaði og heilbrigðari börn.

Heimild: Ruv.is