Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason, þáttastjórnendur á Bylgjunni, réðu varla við sig úr hlátri í Bítinu í morgun þegar þeir ræddu við Leif Guðjónsson verktaka um framkvæmdirnar við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
Það verður sprengt á svæðinu við Barnaspítalann og er gert ráð fyrir að það þurfi að fjarlægja 270 þúsund rúmmetra af sprengdu grjóti á svæðinu.
Leifur veit hvert það efni fer: „Reykjavíkurborg er bara með einn viðurkenndan losunarstað, það er upp í Bolöldu. Þetta eru rúmir 60 km fram og til baka.“
Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá Nýja Landspítalanum, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það muni fara fimm til sex bílar á klukkustund, átta tíma á dag, sex daga vikunnar, þannig sé hægt að fjarlægja jarðveginn á 18 mánuðum.
Leifur er ekki sannfærður um þessa áætlun:
„Þeir segjast ætla að keyra 6 daga vikunnar, 6 eða 8 tímar á klukkutíma, í 8 tíma á dag. Þetta er voða einfalt á Excel-skjali, en ég var um daginn á Keilugranda að rífa risa hús, mikla jarðvinnu þar.
Ég veit alveg hvernig þetta virkar, þú ferð ekkert af stað kl. 8 með fyrsta bíl, það er bara rugl.
Þú ert að byrja um 9, 9:30 og ert hættur kl. 15 út af traffík. Þú ert ekkert með 50 tonna trailer á Hringbrautinni að gera ekki neitt.“
Þáttastjórnendur spurðu þá Leif: Gamla góða íslenska áætlunargerðin. Þannig að þetta verða ekki 20 mánuðir, heldur 40?
„Já er það ekki. 36 mánuðir.“
Þegar hann var spurður hvort þetta væri vanreiknað sagði Leifur:
„Já og vanhugsað. Þetta er líka grátlegt að síðustu bílarnir eru að koma ofan úr fjalli núna í Hlíðarendann, að keyra og fylla upp í Hlíðarendann, sem er hinum megin við götuna, sem allt þetta efni hefði getað farið í.
Það er búið að vinna jarðvinnu fyrir 3 milljarða í Hlíðarenda.“
Sprungu þá Heimir og Gulli úr hlátri og virtust ekki ráða við sig. Ertu ekki að grínast?!
Leifur: „Það hefði mátt vera með færiband yfir götuna.“
Ert þú að segja mér að efnið úr Landspítalalóðinni að góðan part hefði mátt nota í Hlíðarendasvæðið?
„Allt saman. Þetta eru 270 þúsund rúmmetrar í burtu, þetta eru 340 þúsund allt saman. Þetta eru 8 til 10 bílar á klukkutíma. 18 þúsund ferðir. Þetta eru rúmlega 11 þúsund kílómetrar. Það fljúga stundum fuglar fram hjá okkur, einn þeirra sagði okkur að þetta væri að fara annað.
Á að fara í Skerjafjörð og Kársnes og nota í þessa þverun og þessa brú sem á að koma. Ef þú ert að kaupa 270 þúsund rúmmetra í dag þá kosta þeir um 800 milljónir.“
Veistu hvað það þurfti mikið á Hlíðarenda?
„Það er búið að nefna töluna þrír milljarðar í þá framkvæmd, í gatnagerð og jarðvinnu.“
Hér má hlusta á viðtalið við Leif, hláturskastið er á annarri mínútu.
Heimild: Eyjan/Dv.is