Opnuð hafa verið tilboð vegna fullnaðarhönnunar nýs rannsóknahúss.
Rannsóknahúsið er einn hluti af Hringbrautarverkefninu. Stærð hússins er 15.550 m².
Í rannsóknahúsi Nýs Landspítala mun öll rannsóknastarfsemi spítalans sameinast á einn stað. Starfseiningar í rannsóknahúsi verða meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða – og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og sýkla og veirufræði. Einnig mun starfsemi Blóðbanka flytjast í nýtt rannsóknahús.
Rannsóknahúsið tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstökum sjálfvirkum flutningskerfum, einnig með tengigöngum og tengibrúum. Á húsinu verður einnig þyrlupallur sem tengdur er meðferðarkjarnanum.
Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH: „Opnun tilboða í hönnun á nýju rannsóknahúsi er stór áfangi í Hringbrautarverkefninu. Bygging nýs rannsóknahúss mun breyta miklu fyrir Landspítala en þá verður öll rannsóknastarfsemi sameinuð á einn stað.
Einnig ber að geta að mikil samlegðaráhrif verða við Háskóla Íslands, en háskólinn mun reisa nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verður tengt rannsóknahúsinu.
Áætlanir NLSH eru þær að nýtt rannsóknahús verður tekið í notkun á árinu 2024 í samræmi við fjármálaáætlun.
Kostnaðaráætlun verksins er 670.890.000 krónur án vsk
Eftirtalin tilboð bárust frá þeim fjórum hönnunarteymum sem stóðust kröfur sem gerðar voru í forvalinu:
- Grænaborg (Arkstudio ehf, Hnit verkfræðistofa, Landmótun, Raftákn, Yrki arkitektar) 536.371.200 krónur án vsk (79,9% af kostnaðaráætlun)
- Mannvit og Arkís arkitektar. 512.904.960 krónur án vsk (76,4% af kostnaðaráætlun)
- Corpus3 (Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf 477.286.560 krónur án vsk (71,1% af kostnaðaráætlun)
- Verkís og TBL 488.181.600 krónur án vsk (72,7% af kostnaðaráætlun)
Heimild: Vb.is