Hreiðar Hermannsson, forstjóri Stracta hótels, segir dæmi um að fjárfestar hafi hætt við uppbyggingu hótela. Þá séu bankar farnir að stíga á bremsuna í hótelverkefnum.
„Listi fyrirhugaðra hótela er ótrúlegur. Ég hef trú á því að aðeins brot af þessum hótelum verði byggt,“ segir Hreiðar um stöðuna.
Vegna óvissu um kjaramál og sterks gengis krónunnar haldi erlendir aðilar að sér höndum með fjárfestingu í ferðaþjónustunni. Rætt sé um miklar launahækkanir.
Áformað var að byggja tugi hótela víðsvegar um landið á næstu árum. Verði mörg þeirra sett á ís mun fjárfesting í landinu verða minni sem því nemur, sem og hagvöxtur.
Spáir samdrætti í ár
Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur, spáir færri bókunum í júní nú en í fyrra. „Ég held að þetta verði varnarbarátta og að það verði einhver samdráttur á árinu.“
Tölur Hagstofunnar benda til samdráttar í seldum gistinóttum í öllum landshlutum í apríl. Sé litið til fyrstu fjögurra mánaða ársins er hins vegar aðeins samdráttur í þremur landshlutum af sex.
Samdrátturinn á fyrstu fjórum mánuðum ársins er mestur á Suðurnesjum, eða 7%. Steinþór Jónsson segir bókanir hafa tekið skarpa dýfu í maí. Hópar hafi afbókað gistingu.
Samdrátturinn milli ára í apríl er mestur á Austurlandi, eða 22%.
Þráinn Lárusson, eigandi Hótels Hallormsstaðar og Hótels Valaskjálfar, rifjar upp áform síðustu ríkisstjórnar um skattahækkanir á ferðaþjónustuna. Umræðan ein og sér í fyrra hafi leitt til færri bókana í ár. Nú séu áhrifin að ganga til baka.
HM muni draga úr eftirspurn
Þá telur Þráinn að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu muni hafa marktæk áhrif á eftirspurn í íslenskri ferðaþjónustu. Reynslan af fyrri mótum bendi til þess.
Erna Hauksdóttir, fv. framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir vísbendingar um að HM dragi úr innlendri eftirspurn eftir gistingu á landsbyggðinni.
Ásamt þessari þróun kann hærra fasteignamat að leiða til hærri fasteignagjalda hjá hótelum. Kristófer Oliversson, eigandi CenterHotels-keðjunnar, segir þetta munu íþyngja rekstrinum enn frekar.
Líkt og í hótelgeiranum er titringur í fluggeiranum. Verðstríð á mörkuðum er talið munu reyna fjárhagslegan styrk flugfélaganna.
Heimild: Mbl.is