Tilboð í byggingarrétt í Úlfarsárdal voru opnuð þriðjudaginn, 8. maí 2018 sl. að viðstöddum bjóðendum í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, sem staðfestu eða féllu frá boði sínu. Boð bárust í byggingarrétt á öllum lóðum nema fimm. Borgarráð úthlutar lóðum og eru því niðurstöður útboðsins háðar samþykki þess.
Á útboðsfundinum staðfestu bjóðendur tilboð í byggingarrétt fyrir 177 íbúðir af þeim 255 íbúðum sem boðnar voru eða tæp 70%. Heildarupphæð staðfestra tilboða í byggingarrétt er 755 milljónir króna fyrir utan gatnagerðargjöld sem áætluð eru um 300 milljónir. Ekki voru staðfest tilboð í byggingarrétt í Úlfarsárdal fyrir 78 íbúðir og munar þar mest um 46 íbúðir í fjölbýli.
Gengið frá tilboðstryggingu á útboðsfundi
Alls bárust 229 tilboð í byggingarrétt 255 íbúða á þeim 60 lóðum sem í boði voru. Ekki reyndust öll tilboð gild, en samkvæmt reglum útboðsins áttu bjóðendur að vera viðstaddir og ganga frá tilboðstryggingu á staðnum væru þeir með besta boðið. Nokkuð var um að bjóðendur mættu ekki og gerðu þannig tilboð sitt ógilt, en auk þess voru margir sem féllu frá tilboðum sínum á staðnum. Einstaklingar máttu bjóða í margar lóðir, en einungis vera hæstbjóðendur í eina lóð. Margir nýttu sér þann möguleika. Byrjað var að lesa upp tilboð um tvöleytið og var verið að lesa síðustu tilboð á sjötta tímanum.
Skipting tilboða eftir húsgerðum var eftirfarandi:
- Fjölbýli – alls bárust 19 tilboð í byggingarrétt 151 íbúðar á 3 lóðum. Staðfest voru tilboð í 105 íbúðir á tveimur lóðum. Eftir stendur ein fjölbýlishúsalóð með byggingarrétti fyrir 46 ibúðir.
- Raðhús – alls bárust 48 tilboð í 13 lóðir með byggingarrétti fyrir 48 íbúðir. Staðfest voru tilboð í öll nema 2 hús með þremur íbúðum. Eftir stendur því byggingarréttur fyrir 6 íbúðir.
- Parhús – alls voru staðfest 12 tilboð í 2 lóðir með byggingarrétti fyrir 4 íbúðir eða allar sem í boði voru.
- Einbýlishús – alls bárust 125 tilboð í byggingarrétt fyrir 32 íbúðir. Byggingarréttur á 14 lóðum var staðfestur á útboðsfundi. Eftir stendur byggingarréttur fyrir 18 einbýlishús.
- Tvíbýlishús/einbýlishús – alls bárust 25 tilboð í 10 lóðir með byggingarrétti fyrir 20 íbúðir. Byggingarréttur fyrir 6 tvíbýli var staðfestur. Eftir stendur byggingarréttur fyrir 4 tvíbýli (8 íbúðir) .
Þeir sem áttu hæsta tilboð greiddu eins og áður segir tilboðstryggingu til staðfestingar og munu næstu daga skila inn gögnum um fjárhagsstöðu. Þegar borgarráð hefur formlega úthlutað lóð hafa þeir 45 daga til að greiða hana.
Borgarráð tekur endanlega afstöðu til tilboða sem voru staðfest á fundinum. Jafnframt tekur borgarráð afstöðu til þess hvort haldið verði annað útboð á þeim lóðum sem eftir eru eða hvort þær verði seldar á föstu verði.
Hófleg verð voru boðin
Hæstu gildu tilboð í byggingarrétt án gatnagerðargjalda voru eftirfarandi:
„Ég met þessi verð hófleg miðað við það sem sést hefur á markaði undanfarið, sérstaklega hvað varðar fjölbýli,“ segir Magnús Ingi Erlingsson, lögfræðingur á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. „Það ætti að skila sér í lægri byggingarkostnaði og söluverði. Þessi niðurstaða þýðir að nýr hverfishluti við Leirtjörn mun byggjast hratt upp“.
Mikil uppbygging í Úlfarsárdal
Byggingarrétturinn sem nú var í boði tilheyrir bæði í grónari hluta hverfisins sem og nýju svæði við Leirtjörn. Nýlega var ráðstafað byggingarrétti við Leirtjörn fyrir 148 íbúðir m.a. til Búseta og Bjargs íbúðafélags sem rekin eru án hagnaðarmarkmiða. Að því gefnu að borgarráð samþykki niðurstöður tilboða eru um 400 íbúðir að fara í uppbyggingu í Úlfarsárdal sem verður 1.300 íbúða hverfi þegar allt er uppbyggt.
Tengt efni:
- Lóðavefur Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/lodir
- Vefsíða lóðasölunnar í Úlfarsárdal
- Yfirlit yfir öll tilboð – Excel skrá
Heimild: Reykjavík.is