Íbúahópur gegn frekari stóriðju í Helguvík, ásamt Hestamannafélaginu Mána, hvetja bæjarbúa í Reykjanesbæ til þátttöku í kröfugöngu þriðjudaginn 12. maí næstkomandi.
Tilgangur göngunnar er að skora á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að efna til íbúakosninga um kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík.
„Hópurinn telur að aldrei muni nást sátt meðal íbúa Reykjanesbæjar um þetta stóra mál öðruvísi en með íbúakosningu,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum sem segir að einungis þannig muni fást lýðræðisleg niðurstaða, hver sem hún verður.
„Nú reynir á framkvæmd þess sem talað var um fyrir kosningar um lýðræðisleg vinnubrögð og meira samráð við íbúana.“
Gangan hefst kl. 17:30 við smábátahöfnina og þaðan munu hestar og menn ganga upp Hafnargötuna, inn að ráðhúsinu við Tjarnargötu, þar sem hópurinn mun afhenda oddvitum bæjarstjórnar formlega áskorun þessa efnis.
„Við hvetjum sem flesta til að mæta og hvetja bæjarstjórn til að virkja lýðræðið!“