Home Fréttir Í fréttum Eygló Harðadóttir telur að húsnæðisfrumvörpin nái í gegn og verði hluti af...

Eygló Harðadóttir telur að húsnæðisfrumvörpin nái í gegn og verði hluti af lausn kjaradeilna

60
0

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, er enn bjartsýn á að tvö húsnæðisfrumvörp hennar, sem setið hafa föst í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í sex vikur, muni koma fram, að samstaða muni nást um þau og að frumvörpin fái brautargengi. Hún telur einnig að frumvörpin tvö geti orðið „mikilvægur hluti“ af lausn þeirrar hörðu kjaradeilu sem nú geisar á vinnumarkaði. Þetta kom fram í viðtali við hana í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag.

<>

Hefur ekki heyrt frá Bjarna andstöðu við frumvörpin
Frumvörpin, sem snúast annars vegar um breytingar á húsnæðisbótakerfinu og hins vegar um stofnframlög til leigufélaga, áttu upphaflega að koma fram á haustþingi. Þegar ljóst varð að svo yrði ekki átti frumvarp um húsnæðisbætur að koma fram ekki síðar en 27. febrúar og frumvarp til laga um húsnæðismál, um stofnframlög til leigufélaga, eigi síðar en 26. mars, sem var síðasti dagur til að leggja fram mál á Alþingi.

Tvö önnur frumvörp Eyglóar um húsnæðismál, frumvarp um húsnæðissamvinnufélög og um breytingar á húsaleigulögum, áttu einnig að vera komin fram fyrir þennan frest en það náðist ekki. Þau frumvörp eru komin inn í þingið með afbrigðum og umræða um húsaleigulög hófst í lok síðasta mánaðar.

Nú eru einungis níu þingdagar eftir og tíminn til að leggja fram frumvörp með afbrigðum orðin ansi knappur. (Eygló sagði á Sprengisandi að það hafi tekið tvö ár að vinna frumvörpin. Þegar hún hafi tekið við lyklunum í ráðuneytinu, sem Samfylkingin hefði stýrt í mörg ár á undan, hafi ekki einu sinni verið til drög að frumvörpum um breytingar á húsnæðiskerfinu.

Hún sagði ekkert óeðlilegt að það taki fjármála- og efnahagsráðuneytið sex vikur að meta og reikna út hver áhrifin af frumvörpunum. Hún hafi ekki heyrt frá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, að andstaða væri við frumvörpin innan ráðuneytis hans.

Orkubitarnir virkuðu ekki
Líkt og áður sagði eru um sex vikur síðan að frumvörpin tvö voru send til fjármála- og efnahagsráðuneytisins í kostnaðarmat. Upphaflega var vonaðist Eygló til þess að því mati myndi ljúka skömmu eftir páska en af því varð ekki. Þann 7. apríl síðastliðinn sendi hún starfsfólki fjármálaráðuneytisins kveðju á Facebook. Með kveðjunni, sem var sett fram í korti, fylgdi haugur af orkubitum.

Í kortinu var starfsfólk á skrifstofu opinberra fjármála hvatt til að klára kostnaðarmat á frumvörpum hennar um uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis og um aukin húsnæðisstuðning fyrir leigjendur. „Vonandi munu þessir orkubitar hjálpa ykkur við að meta áhrifin á ríkissjóð og þjóðarbúskapinn að hjálpa þeim allra fátækustu að fá öruggt húsaskjól“. Þessi hvatning virðist ekki hafa skilað miklu því í dag, rúmum mánuði síðar, er mati á kostnaði frumvarpana enn ekki lokið.

Mikilvægt innlegg í kjaradeilur
Í viðtalinu við Sprengisand sagði Eygló að frumvörp hennar gætu orðið mikilvægt innlegg í þær hörðu kjaradeilur sem nú geisa á vinnumarkaði. „Ég held að þau geti verið mjög mikilvægur hluti af lausninni,“ sagði Eygló.

Hún greindi einnig frá því að ríkisstjórnin hefði átt í samráði og samtali við deiluaðila þar sem mögulegar skattkerfisbreytingar og breytingar á húsnæðismálum hafi verið kynntar fyrir þeim sem innlegg í kjaradeilurnar. Hins vegar hafi ekki verið lagt fram neitt formlegt tilboð.

Ekkert hafi verið rætt um það að setja lög á verkföll innan ríkisstjórnarinnar, að sögn Eyglóar.

Heimild: Kjarninn.is