Home Fréttir Í fréttum Samkeppnir um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og skipulag á Stjórnarráðsreit

Samkeppnir um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og skipulag á Stjórnarráðsreit

266
0

Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. forsætisráðuneytisins, býður til tveggja opinna samkeppna.

<>

Annars vegar er um að ræða framkvæmdasamkeppni um 1.200 m² viðbyggingu við gamla Stjórnarráðshúsið.

Hins vegar er um að ræða hugmyndasamkeppni um skipulag svokallaðs Stjórnarráðsreits sem markast af Ingólfsstræti, Skúlagötu, Klapparstíg og Lindargötu.

Samkeppnirnar má rekja til þess að í  október árið 2016 ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að efna til hátíðahalda 1. desember 2018 þegar öld verður liðin frá því að sambandslögin öðluðust gildi. Meðal þess sem ríkisstjórninni var falið að gera af því tilefni var að efna til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar og skipulag á Stjórnarráðsreit.

Markmið með samkeppninni um viðbygginguna við gamla Stjórnarráðshúsið er meðal annars að fá fram bestu mögulegu lausn á viðbyggingu aftan við Stjórnarráðshúsið svo unnt sé að nýta hina sögulega byggingu áfram sem aðsetur forsætisráðuneytis og fundarstað ríkisstjórnar Íslands og ráðherranefnda.

Markmið með samkeppninni um skipulag Stjórnarráðsreits er meðal annars að fá fram lausn þar sem áhersla er lögð á raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á skipulagi á reitnum þannig að byggja megi upp á heildstæðan hátt framtíðarhúsnæði ráðuneyta, stofnana ríkisins og dómstóla, meðal annars með hagræðingu í huga.

Skilafrestur tillagna um Stjórnarráðsreitinn  er 18. september  2018, fyrir kl. 15:00 hjá Ríkiskaupum og fyrir viðbygginguna 25. september 2018.

Samkeppnirnar fara fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og eru auglýstar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Niðurstöður dómnefnda munu liggja fyrir í lok nóvember og haldin verður sýning á tillögum sem berast í samkeppnunum í Safnahúsinu við Hverfisgötu í desember 2018.

Nánari upplýsingar er að finna í samkeppnislýsingum á vef Ríkiskaupa, www.rikiskaup.is, útboðsnúmer 20683 og 20684.

Til að nálgast ítargögn þarf að skrá sig til þátttöku á vefnum en gögn verða einnig fáanleg á minniskubbi gegn framvísun staðfestingar hjá Ríkiskaupum, Borgartúni 7c, 105 Reykjavík. Skrifstofa Ríkiskaupa er opin virka daga frá kl. 9:00 – 15:30.

Heimild: Fsr.is