Home Fréttir Í fréttum Íslensk hús eiga að geta staðist „þessi svakalegu rok“

Íslensk hús eiga að geta staðist „þessi svakalegu rok“

212
0

Mannvirkjastofnun ætlar að skoða aðstæðurnar þar sem stór lofttúða fauk fram af þaki 12 hæða fjölbýlishúss í Kópavogi á dögunum. Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar segir að útfrá myndunum sem birtust á Vísi í gær sé augljóst að lofttúðan sé hluti af mannvirkinu, eigi að vera hluti af byggingunni. Lofttúðan lenti aðeins nokkrum metrum frá sjö ára barni á bílaplaninu við húsið.

<>

„Það að hún fjúki síðan af er alvarlegt mál. Það er alveg jafn mikil hætta ef lausamunir eru að fjúka eins og grill,“ sagði Björn í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Í þessu tilfelli er þetta byggingahlutur sem á að vera alveg fastur og íslensk hús eiga að geta staðist þessi svakalegu rok sem geta komið hér upp.“

Mannvirkjastofnun segir að ljóst að í þessu atviki hafi orðið tjón sem hafi verið til þess fallið að skapa hættu. Verður farið yfir teikningar og annað til þess að komast að því hvað gerðist. Björn segir að einnig verði húsfélag byggingarinnar hvatt til að láta gera skoðun á öðrum lofttúðum byggingarinnar.

„Þarna hefur greinilega eitthvað farið úrskeiðis.“

Björn nýtti þetta tækifæri til þess að hvetja húsfélög, þá sérstaklega háhýsa, til að skoða túður og annað sem stendur upp úr þökum sem verða fyrir stormum eins og þeim sem hafa núna gengið yfir landið.

„Til að skoða hvort hlutir séu ekki örugglega fastir.“

Eins og kom fram á Vísi í gær kom fram tæring í festingum lofttúðunnar sem losnaði í Kópavogi en Mannvirkjaskoðun mun skoða málið nánar. Byggingarfulltrúi hefur eftirlit með teikningum og byggingarferlinu en ber þó ekki ábyrgð á svona tjóni.

„Samkvæmt lögum er það alltaf eigandi hússins, eða mögulega rekstaraðili, sem á að sjá til þess að þannig hannað og byggt að svona lagað geti ekki gerst. Þannig að ábyrgðin er alltaf á eigandanum.“

Heimild: Visir.is