Hugmyndir um að setja hluta Sæbrautar í stokk eru til skoðunar hjá Reykjavíkurborg í tengslum við uppbyggingu við fyrirhugaða borgarlínu.
Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar, kynnti hugmyndirnar á kynningarfundi um borgarlínu og uppbyggingarverkefni tengd henni í Ráðhúsinu í dag.
Í máli Björns kom fram að borgin hafi fengið verkfræðistofuna Mannvit, Landslag og Teiknistofuna Tröð til þess að teikna upp mögulega útfærslu á hugmyndinni.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá yfirlitsmynd þar sem búið er að teikna inn á fyrirhugaða uppbyggingu í Vogabyggð og á Ártúnshöfða þar sem gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á næstu árum. Rauða línan táknar mögulega legu hinnar fyrirhuguðu borgarlínu og rauðu kassarnir mögulega staðsetningu biðstöðva fyrir borgarlínuna.
Var myndin útbúin til þess að skoða mögulega útfærslu á því hvernig borgarlínan gæti þverað bæði Elliðaárnar og Sæbrautina.
Gengur hugmyndin út frá því að við mislægu gatnamótin sem tengja saman Sæbraut og Reykjanesbraut verði byggð brú fyrir borgarlínuna yfir Sæbraut. Sæbrautin færi þá undir og inn í um 500 metra langan stokk. Þar fyrir ofan mætti svo byggja íbúðir, verslanir eða aðra þjónustu svo tengja mætti hina fyrirhuguðu Vogabyggð við hið eldra Vogahverfi.
Í samtali við Vísi segir Björn að ekki sé um nýja hugmynd að ræða en árið 2014 kölluðu íbúar á svæðinu eftir því að huga þyrfti vel að tengingum á milli hverfanna, meðal annars með því að leggja þennan hluta Sæbrautar í stokk.
Mögulegt sé að gera þetta í áföngum, byrja á brúnni og halda svo áfram og bendir Björn á að landslagið á þessu tiltekna svæði sé hagstætt þar sem Sæbrautin liggi neðarlega á þessu svæði, því ætti til að mynda að vera auðveldara að koma Sæbrautinni í stokk en Miklubrautinni, líkt og hugmyndir gera ráð fyrir.
Líkt og fyrr segir er málið enn á hugmyndastigi en gerir Björn ráð fyrir því að það verði unnið áfram innan borgarkerfisins á næstu mánuðum.
Heimild: Visir.is