Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að margt hefði breyst frá því menn hafi lagt línur um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Fasteignamarkaðurinn hafi farið úr því að vera í algjörri lægð í það að vera á blússandi siglingu í dag.
Varpaði hann fram þeirri hugmynd að skoða möguleikann á því að selja eignir Landspítalans við Hringbraut og byggja annars staðar. Ríkið gæti jafnvel fengið tugi milljarða strax fyrir fasteignirnar við Hringbraut, lóðirnar og byggingaréttinn. Nefndi hann lóð Ríkisútvarpsins í Efstaleiti sem mögulegan framtíðarstað Landspítalans. Hún væri nálægt flugvellinum sem og Borgarspítalanum. Sagði hann að hugsanlega væri síðan hægt að tengja byggingar við Efstaleiti við Borgarspítalann með göngum undir Bústaðaveg.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í fréttum RÚV í hádeginu að hann hefði fyrst heyrt af þessum hugmyndum Sigmundar Davíðs í gærkvöldi. Þeir milljarðar króna, sem þegar hefði verið varið í hönnun nýs spítala við Hringbraut, myndu glatast ef hugmyndir ráðherrans um nýja staðsetningu næðu fram að ganga.
Páll sagði það væri ábyrgðarhluti að koma með svona hugmyndir og benda í austur og vestur án skýrra áforma um það hvernig uppbyggingunni eigi að vera háttað á næstu fimm til sex árum. Hann segir truflandi að koma núna fram með hugmyndir um að hætta við núverandi áform við Hringbraut. Staðurinn hafi hingað til verið talinn skásti kosturinn fyrir nýjan spítala. Páll óttast að ef hugmyndir forsætisráðherra nái fram að ganga muni það seinka mjög framkvæmdum við byggingu nýs sjúkrahúss.