Home Fréttir Í fréttum Mikil eftirspurn eftir bréfum Reita

Mikil eftirspurn eftir bréfum Reita

63
0

Útboði á hlutabréfum í Reitum lauk síðastliðinn föstudag. Um 3.600 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 25,5 milljarða króna. Arion banki bauð til sölu 100 milljónir hluta í félaginu sem jafngilda 13,25% hlutafjár. Heildarsöluandvirði útboðsins nemur tæplega 6,4 milljörðum króna og vegið meðalgengi 63,875 krónur á hlut. Markaðsvirði alls hlutafjár í Reitum er því rúmlega 48 milljarðar króna þegar miðað er við niðurstöðu útboðsins. Nú liggur fyrir að Kauphöllin hefur samþykkt að taka bréf Reita til viðskipta á Aðalmarkaði fimmtudaginn 9. apríl næstkomandi.

<>

Nokkru áður en útboðið varð vann Íslandsbanki greiningu á stóru fasteignafélögunum þremur, Regin, Reitum og Eik. Reginn var skráð á markað sumarið 2012 og von er á að Eik verði skráð innan tíðar. Greining bankans var með tvískipt verðmat á félaginu en niðurstaða útboðsins gefur til kynna að verðið sé rúmlega krónu hærra en spá hennar gerði ráð fyrir.

Eykur ekki hlutfallslega veltu

„Það verður ekki af þessu útboði tekið að þetta heppnaðist mjög vel og það var vel að þessu staðið,“ segir Kristján Markús Bragason hjá Greiningu Íslandsbanka og bætir því við að hann telji að til skamms tíma verði mikið framboð á bréfunum. Kristján segir að jafnvel þótt verðmæti félagsins sé 48 milljarðar að markaðsvirði þá myndi það ekki auka hlutfallslega veltu á hlutabréfamarkaði. „Samsetning hluthafanna er þannig núna að fyrirfram eru mjög fyrirferðarmiklir fjárfestar. Við munum því tæplega sjá veltu á hlutabréfamarkaði aukast að sama skapi og hlutfallsleg aukning markaðsvirð­ isskráðra hlutabréfa,“ segir hann. Spurður að því hverju skráningin muni breyta fyrir umhverfi fasteignafélaganna segir Kristján að erfitt sé að segja til um það en að félögin séu í eðli sínu mjög stöðug. Þau hafa hins vegar ólík eignasöfn og Kristján varar við því að fjárfestar spyrði þeim blint saman við verðmatsgerð.