Meirihluti nemenda við Iðnskólann í Hafnarfirði er andvígur fyrirhugaðri sameiningu við Tækniskólann. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nemendunum sjálfum. „Nemendur við skólann stóðu á dögunum fyrir undirskriftasöfnun þar sem áformunum er mótmælt,” segir í tilkynningunni.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur skoðað að sameinaðir verði Tækniskólinn í Reykjavík og Iðnskólinn í Hafnarfirði en sameiningin hefur verið gagnrýnd. Sér í lagi þar sem annar skólanna er rekinn af hinu opinbera en hinn er einkaskóli og að of hratt sé farið í sameiningu skólanna.
„Á aðeins tveimur dögum skrifuðu yfir 280 nemendur af rúmlega 400 undir eftirfarandi fullyrðingu:
„Við undirrituð nemendur í Iðnskólanum í Hafnarfirði erum afar ósátt við hvernig staðið er að málum sameiningu skólanna.
Okkur þykir það ólíðandi að við förum í sumarfrí og vitum ekkert hvernig komandi vetri verður háttað. Öll völdum við þennan tiltekna skóla til þess að nema, af ríkri ástæðu. Við krefjumst þess að hagsmunum okkar og kennaranna verði gætt, og að þessi sameining verði endurskoðuð“.
Fulltrúar nemenda munu ganga á fund Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra klukkan 09:10 í fyrramálið og afhenda honum undirskriftalistann,” segir í tilkynningunni. Afhendingin mun því fara fram að morgni 5. maí.
Heimild: Vísir.is