Íbúar í Ölfusi og aðrir hagsmunaaðilar skora á Bæjarstjórn Ölfuss, Vegagerðina, fjarskiptafyrirtækin ásamt ríkisstjórn Íslands að bæta öryggi þeirra sem ferðast um Þrengslaveg og Þorlákshafnarveg. Hafa þau hrint af stað undirskriftasöfnun þess efnis og hafa núna, þegar þetta er skrifað, 380 einstaklingar kvittað undir.
Á undirskriftarsíðunni segir að þau telji að viðhaldi og þjónustu við veginn ásamt öðrum fáfarnari vegum í Ölfusi sé verulega ábótavant og með öllu óviðunandi. „Við lýsum yfir þungum áhyggjum af því að með tilkomu fraktflutninga í Þorlákshöfn og stóraukinni umferð hópferðabifreiða með ferðamenn muni stórhættulegu ástandi einungis fara hríðversnandi.
Til að gera aðstæður enn hættulegri er á löngum kafla ekkert símasamband sem á ekki að þekkjast árið 2017,“ segir á undirskriftarsíðunni.
Þá er tekið fram að vegurinn sé sá allra hættulegasti í dreifbýli ef litið er til slysa með meiðslum per kílómeter á árunum 2012-2016 samkvæmt slysatölum Umferðarstofu.
Heimild: Hafnarfrettir.is