Það er rúmt ár síðan framkvæmdir hófust við grunn skólphreinsistöðvarinnar á uppfyllingu í Sandgerðisbót. Grafið var fyrir dælukjallara, fyllt undir byggingu og rekið niður stálþil. Í kjölfarið var bygging hússins boðin út, en engin tilboð bárust í bygginguna og við það situr.
Boðin út aftur eftir áramót
„Já, við ákváðum að bíða aðeins,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku. „Við höfum náttúrulega horft hér á verktaka í bænum og fylgst aðeins með þeirra störfum og teljum að eftir áramótin, janúar, febrúar, þá sé kominn tími til að bjóða út aftur. Eins og við heyrum þá er að slakna á vinnumarkaðnum, hvað húsbyggingar varðar.“
Allt skólp frá Akureyri fer óhreinsað í sjóinn
Öllu skólpi frá Akureyri er beint í lögnum út í Sandgerðisbót að væntanlegri hreinsistöð. Þar er því stór útrás í sjóinn og svæðið frá Krossanesi að Slippnum mengað af skólpi allt árið. Smábátahöfnin meðal annars. Og heilbrigðisfulltrúi segir ástandið verst í skammdeginu – sólarljósið drepi gerla. „Og þegar sólarljóss nýtur ekki við, þá stækkar þessi mengunarskuggi og teygir sig þá alveg inn á Poll. Og það er afar brýnt að ráðast í þessar framkvæmdir og ljúka þessu,“ segir Alfreð Schiöth, fulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.
Stöðin ekki tilbúin fyrr en um mitt ár 2020
Upphaflega var áætlað að hreinsistöðin yrði tilbúin í árslok 2018, en Helgi segir að það muni nú dragast um eitt og hálft ár. „Okkur er alveg ljóst og við höfum þessa ábyrgð og okkur er treyst fyrir henni. Þannig að við viljum að sjálfsögðu koma þessu upp sem allra fyrst,“ segir hann.
Heimild: Ruv.is