Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við öryggi vegfarenda við nýjan varnarvegg við Miklubraut, í nýrri öryggisúttekt Vegagerðarinnar og borgarinnar. Veggurinn sé ekki viðurkenndur búnaður og gera þurfi úrbætur. Helstu niðurstöðurnar varðandi vegginn felast í því að hann telst ekki vottaður vegbúnaður eins og ber að hafa við ný mannvirki á svona vegum.
Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar segir hönnunarteymið hafi litið svo á að þarna þyrfti ekki vottaðan búnað.
„Þeir mátu það sem svo að þarna þyrfti ekki vottaðan öryggisbúnað. En nú hefur komið í ljós að þar þarf að verja endana á grjóthleðsluveggnum til þess að tryggja öruggi við mögulega ákeyrslu. “
Hefði ekki þurft að kanna þetta áður en framkvæmdir hófust?
„Hönnunarteymið leit þannig á að það væri ekki þörf á því en nú kemur þessi ábending aftur fram og þá þrufum við að bregðast við henni.
Þetta er fjölfarnasta gata landsins, hefði ekki verið betra að hafa varann á og fara að fyllsta öryggi strax frá byrjun?
„Verkefninu er ekki lokið og það verður brugðist við þessu. Við munum fara í þessar ábendingar sem koma fram í öryggisrýninni og finna tillögur að lausnum.“
Þorsteinn segir að sennilegast þurfi að lækka hámarkshraðann, setja upp varnir við enda veggjanna norðan Miklubrautar og vottuð vegrið meðfram öllum veggnum. Viðbótarkostnaður sem þessu fylgi liggi ekki fyrir en nú þegar hafi framkvæmdin kostað um 350 milljónir króna.
„Eftirá að hyggja hefði verið betra að hönnunarteymið hefði svarað með skýrari hætti þegar að athugasemdir komu fram.“
Var þetta klúður?
„Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að þetta hafi verið klúður. Menn gefa sér mismunandi forsendur og við erum inní borgarlandinu, -við erum ekki í víðáttu. Við þurfum oft að gera málamiðlanir og horfa öðruvísi á hlutina. Ég myndi ekki kalla þetta klúður nei.“
En er vegurinn öruggur núna þangað ráðist verður í þessar úrbætur?
„Ég myndi ekki segja að hann sé óöruggur alla vega, þetta er ennþá vinnusvæði þannig að hann er ekki óöryggari en hann hefur verið síðustu vikur og mánuði en engu að síður þá þarf að fara í þessi atriði að verja endana með vegriðum og öðru.“
Heimild: Ruv.is