Home Fréttir Í fréttum Mikil uppbygging á KR-svæðinu í kortunum

Mikil uppbygging á KR-svæðinu í kortunum

194
0
Svona lítur tillaga arkitekta út sem deiliskipulagsvinna á að miðast við. Mynd/ASK arkitektar/B.Snæ

Íþróttasvæði KR-inga í Frostaskjóli mun taka stakkaskiptum gangi áætlanir KR og Reykjavíkur eftir. Fyrir liggja tillögur sem miða að því að snúa knattspyrnuvellinum, byggja knatthús, íbúðir og húsnæði fyrir verslun og þjónustu á íþróttasvæði KR.

<>

Í síðustu viku samþykkti Borgarráð viljayfirlýsingu milli KR og borgarinnar um mögulega uppbyggingu á svæðinu. Vinna á nýtt deiliskipulag fyrir svæðið og samtals er gert ráð fyrir 32 þúsund fermetra aukningu á byggingamagni á svæðinu. Heildaraukning á aðstöðu KR nemur allt að 12.000 fermetrum. Tæpir 10.000 fermetrar verða til fyrir íbúðir og um 10.000 fermetrar undir verslun og þjónustu. Vinna við deiliskipulagið miðast við tillöguna sem sjá má hér að ofan en þær hafa verið kynntar í borgarkerfinu, sem og í Hverfisráði Vesturbæjar.

Líkt og sjá má myndinni hér fyrir ofan er gert ráð fyrir að knattspyrnuvellinum verði snúið frá því sem nú er. Þá er gert ráð fyrir stúku við völlinn, 50×70 metra yfirbyggðu knatthúsi, auk margvíslegra bygginga sem bæði er hugsaðar sem íbúðir, félagsaðstaða fyrir KR sem og ýmiskonar þjónusta fyrir hverfið.

„Aðalhvatinn er sá að bæta íþróttalega og félagslega aðstöðu. Til þess að gera það fórum við þessa leið að gera tillögu að því að snúa vellinum og nýta Kaplaskjól og Flyðrugranda undir þjónustulega starfsemi og eitthvert form að minni íbúðum til að laða að yngra fólk,“ segir Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, í samtali við Vísi.

Svona lítur svæðið út í dag.

„Hugmyndafræðin gengur út á það að reyna að koma því þannig fyrir að þarna sé góð þjónusta fyrir hverfið og að við tengjum svolítið umhverfið sem við erum í, sundlaugina, Kaffi Vest, Melabúðina, Ísbúðin og allt þetta og svo eitthvað form af líkamsrækt, heilsu, læknisþjónustu og auðvitað hverfistengda þjónustu borgarinnar,“ segir Jónas.

Gæti tekið breytingum

Eftir að viljayfirlýsingin var samþykkt í Borgarráði skapaðist töluverð umræðu um uppbyggingu á svæðinu á samfélagsmiðlum. Flestir virtust sammála um að þörf væri á uppbyggingu á svæðinu en síðasta mannvirkið var reist árið 1999. Lýstu þó nokkrir yfir áhyggjum vegna þess byggingamagns sem fyrirhugað er og veltu fyrir sér hver væri þörfin á því að byggja íbúðir á íþróttasvæði KR.

Jónas segir að fyrirmyndin sé sótt til Norðurlanda þar sem tíðkist að tengja saman íþróttasvæði og þjónustu við byggð. Fór hann meðal annars í heimsókn til íþróttafélagsins Lilleström í Noregi til þess að skoða aðstæður. Þá bendir hann á að sé aðalvellinum snúið við skapist töluvert pláss á jaðri svæðisins við Flyðrugranda og Kaplaskjólsveg.

Hann bendir þó einnig á að að tillögurnar sem sjá má hér fyrir ofan geti þó vel breyst í deiliskipulags- og kynningarferlinu sem fram undan er. Hann segir KR leggja áherslu á að vinna ferlið í samvinnu við samfélagið í Vesturbænum. Hann sé þó á því að tillögurnar sem fyrir liggja séu til þess fallnar að bæta og fegra umhverfið í grennd við íþróttasvæðið.

Jónas Kristinsson er framkvæmdastjóri KR.

„Það á auðvitað eftir að vinna þetta í sátt við umhverfið, teikna þetta til og fara með þetta í gegnum ferlið. Þetta gæti vel tekið töluverðum breytingum. Aðalatriðið er auðvitað að vinna þetta þannig að það sé sátt í umhverfinu og við horfum á þetta þannig að við getum stækkað og dafnað inn í framtíðina,“ segir Jónas.

Hugsanlega byggt í áföngum

Jónas segir að vinna við deiliskipulag og kynningu í hverfinu muni standa fram á vor. Aðspurður um hvenær megi búast við að framkvæmdir hefjist segir Jónas að of snemmt sé að segja til um það. Hann bendir þó á að mögulega sé það skynsamlegt að byggja svæðið upp í áföngum, þannig megi byrja á knatthúsinu, færa sig svo yfir í knattspyrnuvöllinn og félagsaðstöðu áður en að lokum verði farið í að byggja íbúðirnar og rými fyrir aðra þjónustu.

Samkvæmt fyrrgreindri viljayfirlýsingu eru borgin og KR sammála um að virðisaukinn sem kunni að verða til vegna aukins byggingamagns skuli renna til uppbyggingar fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í Vesturbæ á vegum KR. Verður KR eigandi þeirra bygginga.

Fáist nýtt deiliskipulag samþykkt er gert ráð fyrir því að gengið verði frá formlegum samningi milli Reykjavíkurborgar og KR um framkvæmdina þar sem fram komi áætlaður stofnkostnaður mannvirkja KR, forgangsröðun þeirra og frekari útfærsla, virðisauki vegna aukins byggingarréttar, tímaáætlun verkefnisins og leigusamningi við Reykjavíkurborg á viðkomandi mannvirkjum vegna hverfistengdrar þjónustu.

Heimild: Visir.is