Home Fréttir Í fréttum Ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir

Ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir

80
0
Ályktun um samgöngumál.
Lögð fram á 41. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 29.-30. september 2017 leggur áherslu á að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á Suðurnesjum og felur stjórn sambandsins að funda með nýjum ráðherra samgöngumála við fyrsta mögulega tækifæri til að fara yfir áhersluatriði Suðurnesjamanna í samgöngumálum. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum er sammála um að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni:

• Ljúka þarf tvöföldun vestanverðrar Reykjanesbrautar að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og huga að öryggi vegtenginga að nærliggjandi bæjarfélögum.

<>

• Tryggja þarf öryggi á Grindavíkurvegi með því að hefja undirbúning sem fyrst að lagningu „2+1“ vegar frá Reykjanesbraut að þéttbýlinu í Grindavík.

• Nauðsynlegt er að ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir á þjóðvegunum bæði að Garði og Sandgerði auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjanna.

• Sveitarfélögin, Vegagerðin og Isavia þurfa að vinna saman að því að auka möguleika fólks til að ferðast fótgangandi og á hjólum á Suðurnesjum með uppbyggingu stígakerfis bæði á milli byggðarkjarna og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

• Halda þarf áfram að vinna markvisst að sjóvörnum með strönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum til að verjast landbroti af völdum ágangs sjávar.

• Tryggja þarf að stuðningur ríkisins til uppbyggingar hafna sé í samræmi við samþykkt Svæðisskipulag Suðurnesja þannig að hægt sé að halda áfram með uppbyggingu stórskipahafnar í Helguvík og tryggja stöðu Grindavíkurhafnar og Sandgerðishafnar sem fiskihafna.

• Auka þarf framlög til vetrarþjónustu á þjóðvegum á Suðurnesjum þannig að hún sé í samræmi við verklagsreglur Vegagerðarinnar um aukna umferð.

• Mikilvægt er að landshlutasamtök fái nægt fjármagn til að hægt sé að reka almenningssamgöngur án halla enda eru þær grundvöllur fyrir því að Suðurnesin geti talist eitt atvinnusvæði og fólk komist til og frá vinnu á stærstu vinnustöðum svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í Bláa lóninu.

• Stærsta og mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar er alþjóðlegur flugvöllur á Miðnesheiði og tryggja þarf að starfsemi og nauðsynleg uppbygging þar geti verið í samræmi við þarfir íslensks samfélags.

• Hugmyndir um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni hafa verið settar fram án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við sveitarfélög eða aðra aðila á Suðurnesjum.

Þau vinnubrögð eru harðlega gagnrýnd og er gerð krafa um að Suðurnesjamenn fái aðkomu að vinnu við að skoða framtíð flugsamgangna á SV-horninu. Þá er einnig mikilvægt að samfélagslegir hagsmunir sem og umhverfishagsmunir séu skoðaðir og metnir og málið sé skoðað frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðarstæði nýs flugvallar verði tekin ef til þess kemur.

Heimild: Pressan.is