Home Fréttir Í fréttum Tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára

Tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára

212
0
Mynd: Visir.is Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára í dag.

Fyrsta skóflustungan að nýju hverfi í Kópavogi, 201 Smára, var tekin í dag. Það voru þau Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs og Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, sem tóku skóflustunguna að fyrsta áfanga hverfisins.

<>

Að því er fram kemur í tilkynningu er um að ræða 620 íbúðir í byggð sem mun rísa í Smáranum, það er sunnan Smáralindar, og hefur byggðin fengið nafnið 201 Smári.

57 íbúðir verða byggðar nú í fyrsta áfanga en þær eru tveggja til fjögurra herbergja. Aðalhönnuðurinn er Arkís og hefur verið samið við ÍAV um verktöku. Miðað er við að framkvæmdum við þennan áfanga ljúki í árslok 2018 en að hafist verði handa við næsta áfanga verkefnis strax næsta haust.

„Nú er að hefjast nýr kafli í uppbyggingu á Smáralindarsvæðinu sem er einkar ánægjulegt. Væntanlegir íbúar munu njóta þess að búa á frábærum stað miðsvæðis í hverfi þar sem öll þjónusta er til staðar, skólar og verslun,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningu.

„Við erum afar ánægð að hefja nú framkvæmdir við þetta spennandi og glæsilega hverfi. Hugmyndafræðin að baki 201 Smára byggir á nútímalegri nálgun skipulags, uppbyggingar og hönnunar sem ekki hefur verið boðið upp á áður hér á landi. Almenningi hefur meðal annars gefist tækifæri á að hafa áhrif á hönnun og útfærslu hverfisins með aðstoð gagnvirks vefsvæðis og var þátttaka mjög mikil,“ er haft eftir Ingva Jónassyni, framkvæmdastjóra Klasa, í tilkynningu.

Heimild: Visir.is