Home Fréttir Í fréttum Tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára

Tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára

199
0
Mynd: Visir.is Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs, Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tóku fyrstu skóflustunguna að 201 Smára í dag.

Fyrsta skóflustungan að nýju hverfi í Kópavogi, 201 Smára, var tekin í dag. Það voru þau Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, formaður bæjarráðs Kópavogs og Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, sem tóku skóflustunguna að fyrsta áfanga hverfisins.

Að því er fram kemur í tilkynningu er um að ræða 620 íbúðir í byggð sem mun rísa í Smáranum, það er sunnan Smáralindar, og hefur byggðin fengið nafnið 201 Smári.

57 íbúðir verða byggðar nú í fyrsta áfanga en þær eru tveggja til fjögurra herbergja. Aðalhönnuðurinn er Arkís og hefur verið samið við ÍAV um verktöku. Miðað er við að framkvæmdum við þennan áfanga ljúki í árslok 2018 en að hafist verði handa við næsta áfanga verkefnis strax næsta haust.

„Nú er að hefjast nýr kafli í uppbyggingu á Smáralindarsvæðinu sem er einkar ánægjulegt. Væntanlegir íbúar munu njóta þess að búa á frábærum stað miðsvæðis í hverfi þar sem öll þjónusta er til staðar, skólar og verslun,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningu.

„Við erum afar ánægð að hefja nú framkvæmdir við þetta spennandi og glæsilega hverfi. Hugmyndafræðin að baki 201 Smára byggir á nútímalegri nálgun skipulags, uppbyggingar og hönnunar sem ekki hefur verið boðið upp á áður hér á landi. Almenningi hefur meðal annars gefist tækifæri á að hafa áhrif á hönnun og útfærslu hverfisins með aðstoð gagnvirks vefsvæðis og var þátttaka mjög mikil,“ er haft eftir Ingva Jónassyni, framkvæmdastjóra Klasa, í tilkynningu.

Heimild: Visir.is

Previous articleByggja þarf 280 hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu til að mæta grunnþörf
Next article07.06.2017 Vífilsstaðavegur, hringtorg og hljóðvist Neðri Lundir