Home Fréttir Í fréttum Verktakar á Norðurlandi vongóðir vegna framkvæmda við Þeistareykjavirkjun

Verktakar á Norðurlandi vongóðir vegna framkvæmda við Þeistareykjavirkjun

131
0
Mynd: Landsvirkjun

Verktakar á Norðurlandi vonast margir hverjir eftir spóni í ask vegna umfangsmikilla framkvæmda fram undan við Þeistareykjavirkjun. Undirritun samninga um byggingu stöðvarhúss og veitna í síðustu viku markar upphaf stærstu framkvæmdar Landsvirkjunar síðan Búðarhálsstöð var vígð í fyrravor. Um ræðir verk upp á 6,6 milljarða króna en línur eiga að nokkru enn eftir að skýrast hvort virðisaukinn mun renna til norðlenskra verktaka eða ekki.

<>

Deilt er um orkuverð, umhverfisáhrif, mengandi stóriðnað sem knýr áfram virkjanastefnu Landsvirkjunar og stjórnvalda. Virkjanastefnu sem náttúruverndarsamtök kalla ýmist ofnýtingu eða rányrkju. Stefnan muni bitna mjög á efnahag, sjálfbærni og tækifærum Íslendinga í framtíðinni, að ekki sé talað um árekstra virkjanastefnunnar við upplifun heimamanna og ferðamanna þar sem ósnortin náttúra er talin til æðstu verðmæta, andlegra sem veraldlegra.

Ekkert í upptalningunni að framan breytir þó því að sveitarstjórnir á Norðurlandi fagna mjög Þeistareykjaframkvæmdum, enda vilja margir heimamanna sneið af kökunni. Árni Viðar Friðriksson hjá verkfræðistofunni Raftákni á Akureyri er í hópi norðlenskra verktaka sem munu vinna við uppbyggingu Þeistareykja. Hann segir að ekki séu öll kurl komin til grafar varðandi hverjir fái hvað.

Reykvískir aðilar stórir

„Ég get ekki fullyrt að Norðlendingar fái mestan part af vinnunni. Það var LNS Saga í Reykjavík sem fékk það verk að byggja stöðvarhúsið og sömuleiðis vinnu við gufuveituna,“ segir Árni í svari við fyrirspurn blaðsins.

Rafmenn og Rafeyri eru saman með raflagnirnar í stöðvarhúsið sem og raflagnir fyrir gufuveituna líka en Raftákn er sem undirverktaki Rafeyrar og Rafmanna með hönnun og forritun stýringa, svokallaðra hjálparkerfa í stöðvarhúsið.

„Raftákn er í samvinnu við erlend fyrirtæki að vinna tilboð í stjórnkerfi virkjunarinnar sem er núna í útboði á Evrópska efnahagssvæðinu. Það verður opnað 5. maí næstkomandi. Það á því eftir að koma í ljós hvort við náum einhverju af þeirri „köku“ en það er stórt hagsmunamál fyrir Raftákn.

Raftákn var undirverktaki Siemens í Þýskalandi við stjórnkerfi Hellisheiðarvirkjunnar og það er langstærsta verkefni sem Raftákn hefur unnið að í 39 ára sögu fyrirtækisins.

Þrátt fyrir þá reynslu uppfylla starfsmenn Raftákns ekki þær kröfur sem gerðar eru til að geta boðið sjálfstætt í þetta verkefni,“ segir Árni.

200 menn að störfum

Á Þeistareykjum er áformað að setja upp tvær túrbínur (2 x 45 MW) og möguleiki á öðrum tveimur í framtíðinni ef næg gufa fæst. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljarða króna. Þegar mest verður munu hátt í 200 starfsmenn vera við vinnu á svæðinu á framkvæmdatímabilinu en stöðvarhúsið samanstendur af þjónustubyggingu og verkstæði ásamt tveimur vélasölum. Byggð verður skiljustöð, niðurrennslismannvirki og dælustöð fyrir kaldavatnsveitu ásamt því að leggja gufupípur að þremur núverandi borsvæðum. Gert er ráð fyrir því að starfsmenn LNS Sögu mæti á svæðið og hefji undirbúning framkvæmda á næstu vikum, en ef allt fer eftir áætlun fara byggingarframkvæmdir fram árin 2015 og 16 og uppsetning á vélum og öðrum búnaði 2017. Stefnt er að því að Þeistareykjastöð verði tengd Landsneti sumarið 2017 og hefji framleiðslu inn á kerfið í október sama ár.

Löng saga

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir gott til þess að vita að innan þriggja ára geti Landsvirkjun hafist handa við að framleiða frekari verðmæti fyrir eigendur okkar, íslensku þjóðina, „úr þeirri auðlind sem við eigum saman“ eins og hann orðar það. Unnið hefur verið að undirbúningi jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki til fjölda ára en Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem liggur suðaustur af Húsavík; frá Höfuðreiðarmúla í norðri og suður undir Kvíhólafjöll og frá Lambafjöllum í vestri að Ketilfjalli og Bæjarfjalli í austri. Jörðin er í eigu Þingeyjarsveitar.

Heimild: Akureyri.net