Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerði á dögunum alvarlegar athugasemdir við brunavarnir í félagsmiðstöðinni Igló, sem er til húsa hjá Snælandsskóla í Kópavogi. Ráðist var í óreglulega eldvarnaskoðun hjá félagsmiðstöðinni eftir að slökkviliðinu barst ábending frá foreldra úr hverfinu. Um er að ræða gluggalaust kjallararými sem ekki var hannað undir félagsmiðstöð.
Í skoðunarskýrslunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, eru gerðar athugasemdir við aðgengi að flóttaleið, sem var falin bakvið tjald og húsgögn, og að svæði milli tjaldsins og eldvarnahurðar hafi verið nýtt sem geymsla þar sem komið hafði verið fyrir brennanlegu dóti.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins taldi umtalsverða ágalla á brunavörnum mannvirkisins, sem er næst hæsta stig af fjórum. Alvarlegir ágallar er hæsta stigið sem slökkviliðið notar til að lýsa stöðu brunavarna hverju sinni.
Skoðunarskýrslan var send Snælandsskóla og skólastjórnendum veittur eins dags frestur til að hlíta tilmælum slökkviliðsins um viðeigandi úrbætur.
Í samtali við Kjarnann segir Alfons S. Kristinsson, skoðunarmaðurinn hjá Slökkviliðið höfuðborgarsvæðisins sem annaðist úttektina á brunavörnum húsnæðisins, að daginn eftir að krafist var úrbóta hafi forráðamaður félagsmiðstöðvarinnar sent ljósmyndir í tölvupóst sem staðfestu að brugðist hafði verið við tilmælum slökkviliðsins.
Þá segir Alfons að almennt séu brunavarnir í góðu lagi hjá skólum og félagsmiðstöðvum í Kópavogi, en slökkvilið framkvæmir reglubundið eftirlit með brunavörnum hjá þessum aðilum á hverju hausti.
Heimild: Kjarninn.is