Home Fréttir Í fréttum Vill ráðast í allsherjar úttekt á starfsemi Isavia

Vill ráðast í allsherjar úttekt á starfsemi Isavia

100
0
Mynd: Dv.is

Stjórnendur Isavia kallaðir fyrir þingnefnd í morgun – Farið yfir ýmis umdeild mál tengd opinbera hlutafélaginu á fundi sem stóð yfir í tvær klukkustundir.

<>

„Ég tel að það sé full þörf á því að gera úttekt á starfsemi Isavia og við í nefndinni ætlum að kanna hvaða möguleika Alþingi hefur til að slík úttekt fari fram,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, um tveggja klukkustunda langan fund sem meðlimir nefndarinnar áttu með Birni Óla Haukssyni, forstjóra Isavia, í morgun.

Björn var kallaður fyrir þingnefndina til að skýra ýmis mál tengd félaginu sem hafa ratað í fjölmiðla á síðustu mánuðum. Hann mætti fyrir nefndina ásamt Karli Alvarssyni, lögmanni Isavia, en þangað mættu einnig starfsmenn Samkeppniseftirlitsins til að útskýra aðkomu stofnunarinnar að ýmsum málum tengdum opinbera hlutafélaginu.

„Þetta var góður og langur fundur og við fórum yfir þau mál sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum upp á síðkastið. Þar á meðal eru ávirðingar um að verið sé að skoða notkun starfsmanna Isavia á samfélagsmiðlum, ferðalög fjölskyldu forstjórans og samskipti bæði við starfsfólk og verkalýðsfélög. Við bentum á að allar þessar fréttir sýna afar neikvæða mynd af Isavia,“ segir Höskuldur.

„Síðan ræddum við líka athugun Samkeppniseftirlitsins um afgreiðslustæði fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli en stofnunin hefur gert athugasemdir við það hvernig úthlutunin hefur farið fram og fengum við skýringar á því. Síðast en ekki síst ræddum við einnig úthlutun á verslunarrými í Leifsstöð sem hefur verið í deiglunni síðan í haust og báðum aðila frá Isavia um að fara yfir það með okkur.”

Höskuldur segist einnig telja það nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun á hlutverki Isavia. Fyrirtækið sinni í dag of mörgum verkefnum.

„Við stöndum frammi fyrir því að Isavia er opinbert hlutafélag og um það gilda aðrar reglur en einstaka stjórnsýslustofnanir. Fyrirtækið hefur mikið frjálsræði samkvæmt lögum en það verður að tryggja með einum eða öðrum hætti að Alþingi geti sinnt eftirliti sínu og það er í okkar valdi að tryggja að öll umræða og umsýsla í kringum þetta fyrirtæki sé í lagi,“ segir Höskuldur.

Heimild: DV.is