Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði um 1,8 prósent í febrúar síðastliðnum frá fyrir mánuði. Það er sjöundi mánuðurinn í röð þar sem verðhækkunin er yfir einu prósenti á milli mánaða, en á því tímabili hefur húsnæðisverð hækkað um 12,7 prósent. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka sem unnin er upp úr tölum Hagstofunnar.
Íbúðaverð hefur hækkað um 16 prósent yfir síðustu tólf mánuði, en hækkunartaktur íbúðarverðs hefur ekki verið hraðari síðan í upphafi árs 2008.
„Þar sem verðbólgan hefur verið lítil og nokkuð stöðug undanfarið hefur hraðari taktur í verðhækkun íbúðarverðs komið fram í samsvarandi hraðari raunhækkun íbúðaverðs,“ segir í greiningu Íslandsbanka.
Þar segir jafnframt að yfir síðustu tólf mánuði hafi raunverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 13,8 prósent, sem er mesta raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis sem mælst hefur síðan í apríl 2006. Er raunverð íbúða orðið hátt sögulega séð og nálægt því sem það fór hæst í síðustu uppsveiflu.
Heimild: Visir.is