Home Fréttir Í fréttum Fjórir ráðherrar í aðgerðarhóp til að greiða fyrir byggingu lítilla íbúða

Fjórir ráðherrar í aðgerðarhóp til að greiða fyrir byggingu lítilla íbúða

51
0

Settur verður á fót aðgerðahópur á vegum fjögurra ráðherra sem gera á tillögur um samræmdar aðgerðir á sviði húsnæðismála til að greiða fyrir byggingu lítilla og hagkvæmra íbúða. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu Þorsteins Víglundssonar félags- og jafnréttismálaráðherra þessa efnis á fundi sínum í morgun.

<>

Að hópnum munu standa ráðherrar félags- og jafnréttismála, fjármála- og efnahags umhverfismála og samgöngumála. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum innan fárra vikna en honum er ætlað að skoða eftirfarandi þætti:

  • Aukið samstarf ríkis og sveitarfélaga við mat á væntri eftirspurn íbúðarhúsnæðis og hvernig sveitarfélög tryggi nægjanlegt framboð lóða.
  • Umbætur í skipulagslöggjöf til að einfalda þéttingu byggðar.
  • Athugun á verðlagningu lóða og álagningu gatnagerðargjalda með það í huga hvort núverandi fyrirkomulag hindri með einhverjum hætti byggingu lítilla íbúða.
  • Athugun á núgildandi byggingarreglugerð með einföldun gagnvart byggingu minni og hagkvæmra íbúða í huga.
  • Úttekt á stuðningi stjórnvalda til húsnæðiskaupa/leigu með hliðsjón af þörfum fyrstu kaupenda/leigjenda.

 

Í minnisblaði ráðherra um efnið er m.a. bent á að vandinn á fasteignamarkaði hafi verið ágætlega skilgreindur og kortlagður en aðgerða sé þörf. Stjórnvöld beri ábyrgð á lagaumgjörð húsnæðismála, að tryggja efnahagslegan stöðugleika og þar með að skapa skilyrði fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað.

Löggjöf um skipulags- og byggingamál þurfi að styðja við raunhæfa áætlanagerð í málaflokknum til skemmri og lengri tíma og eins sé húsnæðisstuðningur og fyrirkomulag hans á ábyrgð stjórnvalda. Mikilvægt sé að húsnæðisstuðningi sé varið í þágu þeirra sem mest þurfi á honum að halda.

Heimild: Visir.is