Home Fréttir Í fréttum SS byggir 24 raðhúsaíbúðir fyrir starfsmenn

SS byggir 24 raðhúsaíbúðir fyrir starfsmenn

148
0
Húsnæði SS á Hvolsvelli

Í dag munu fulltrúar Rangárþings eystra og Sláturfélags Suðurlands skrifa undir viljayfirlýsingu um byggingu 24 lítilla raðhúsaíbúða á Hvolsvelli til leigu fyrir starfsfólk SS.

<>

Þensla er á húsnæðismarkaði og gildir það um Hvolsvöll eins og mörg önnur landsvæði. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að það séu hagmunir SS að geta tryggt starfsfólki sem þess óskar aðgang að vönduðu leiguhúsnæði til langs tíma.

Í samvinnu við Rangárþing eystra stefnir SS að byggingu 24 lítilla raðhúsa til útleigu til starfsfólks SS. Rangárþing eystra sér til þess að til séu á skipulagi lóðir en SS byggir og á húsnæðið. Í viljayfirlýsingunni segir að ekki sé vitað til þess að önnur fyrirtæki hafi með sambærilegum hætti aðstoðað starfsfólk með því að leggja til vandað húsnæði til langtíma leigu.

Árið 1991 flutti SS kjötiðnað sinn frá Reykjavík til Hvolsvallar og með honum um 130 ársverk. Umfang starfseminnar hefur aukist síðan þá og í dag eru um 160 ársverk á vegum SS í Rangárþingi eystra. Iðnaðarhúsnæði SS á Hvolsvelli telur um 9.000 fermetra.

Unnið er að stækkun kjötvinnslunnar og er búið að hanna 1.300 fermetra stækkun sem mun auka afköst við framleiðsluna og gera nýjungar í framleiðslu mögulegar. Jafnframt er stefnt að fullu útflutningsleyfi til Bandaríkjanna en mikil áhugi er á SS pylsunni þar í landi.

Heimild: Sunnlenska.is