Home Fréttir Í fréttum Endurskoða þarf leyfisferlið vegna framkvæmda

Endurskoða þarf leyfisferlið vegna framkvæmda

113
0

FréttirEndurskoða þarf leyfisferlið
Fjölmennur morgunverðarfundur VFÍ.
23.11.2016

<>

Almenn samstaða var um það á morgunverðarfundi Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) að taka þurfi núgildandi leyfisferli framkvæmda til endurskoðunar þannig að athugasemda- og kærumál setji ekki verkefni óvænt í uppnám á síðustu metrunum þegar framkvæmdir eru að hefjast, eins og átti sér stað vegna línuframkvæmda á Norðausturlandi.

Markmið fundarins var að greina kosti og galla núverandi leyfisferlis og mætti á sjöunda tug gesta til að hlýða á frummælendurna, þau Ásbjörn Blöndal, Guðmund Inga Ásmundsson og Sif Jóhannesdóttur, og taka þátt í pallborðsumræðum.

Framkvæmdastjóri þróunarsvið HS Orku, Ásbjörn Blöndal, fór yfir ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda og sagði að í núverandi ferli væru fagstofnanir að koma margsinnis að sama máli. Þá benti hann á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála gæti ekki unnið eftir þeim tímaramma sem henni væri settur, málin sem kæmu til nefndarinnar væri einfallega það mörg og lagði hann til að komið yrði á sameiginlegri úrvinnslu aðalskipulagsmála, mats á umhverfisáhrifum, deiliskipulagsmála og leyfisveitinga í einu samræmdu ferli sem stjórnað yrði af Skipulagsstofnun.

Kærur seint í ferlinu
Línulagnir Landsnets vegna Bakka hafa verið í undirbúningi í nánast áratug og sagði Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri, eftir að hafa rakið undirbúningsferilinn, að varla hefði verið settur jafn mikill kraftur í nokkuð annað verkefni af fyrirtækisins hálfu. Hann undirstrikaði að Landsnet vildi hafa leyfisferlana opna og gagnsæa en það væri umhugsunarefni hve seint kærur kæmu inn með núverandi fyrirkomulagi, sem hefði í för með sér miklar tafir, m.a. þar sem mögulegt væri að kæra oft sömu þættina.

Formaður skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings, Sif Jóhannesdóttir, sagði m.a. í sinni framsögu að það hefði komi henni verulega á óvart þegar kærur fóru að berast vegna línulagnanna fyrir Bakka. Fyrirhugaðar línur og línuleiðir hefðu legið lengi fyrir í svæðisskipulagi, áhersla hefði verið lögð á að fylgja lögboðnum ferlum og allt verið klárt svo lengi. Þess vegna hafi henni fundist óeðlilegt að hægt væri að kæra málið á lokasprettinum.

Þörf á skýrri stefnumótun
Pallborðsumræður voru að loknum framsöguerindum og sátu þar fyrir svörum, auk framsögumanna, þau Hafsteinn Viktorsson, framkvæmdastjóri PCC og alþingismennirnir Þórunn Egilsdóttir og Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri SA. Þau töldu öll mikilvægt að breyta leyfisferli framkvæmda og sagði Þorsteinn m.a. mikilvægt að straumlínulaga þessa ferla, hvað væri hægt að kæra og hvenær. Þórunn tók í sama streng. Þrátt fyrir breytingar væru ferlarnir nægilega skilvirkir, kærur yrðu að koma inn fyrr og umræða um kosti og galla því það gengi ekki að verkefni stöðvuðust á síðustu metrunum. Hafsteinn frá PCC benti á að hleypa þyrfti aðilum fyrr að með athugasemdir og meira samtal þyrfti að vera á milli framkvæmdaaðila og hagsmunahópa. Forstjóri Landsnets tók í sama streng og áréttaði líka þörfina á skýrri stefnumótun stjórnvalda. Þörf væri á að taka á því sagði hann og benti á að í þeim löndum þar sem skýr stefnumótun stjórnvalda lægi fyrir í þessum málum gengi vel að leysa úr ágreiningsmálum.

Fundarstjóri var Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Stika. Annar fundur er fyrirhugaðar um sama málefni eftir áramót og sagði Sveinn Ólafsson, formaður Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi innan VFÍ sem stendur fyrir fundunum, að þá yrði rætt um mögulegar endurbætur á leyfisferli framkvæmda.

Glærur og upptaka

Ferli leyfisveitinga vegna framkvæmda
Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku.

Vandamál vegna línuframkvæmda á NA-landi
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Heimild: Vf.is