Home Fréttir Í fréttum Pólskt verktakafyrirtæki G&M pakkar saman og skilur verkamennina eftir

Pólskt verktakafyrirtæki G&M pakkar saman og skilur verkamennina eftir

602
0
Mynd: RÚV
Pólskt verktakafyrirtæki, sem vann að þremur stórum verkefnum á Íslandi, hefur pakkað saman og skilið pólska verkamenn sína eftir í lausu lofti. Fyrirtækið sveik starfsmennina um hundruð þúsunda króna á mánuði.

Verktakafyrirtækið, sem vann meðal annars að byggingu sjúkrahótels við Hringbraut, ætlaði greinilega aldrei að fara eftir íslenskum kjarasamningum og lögum. Þetta segir aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Fyrirtækið skuldar starfsmönnum sínum tugi milljóna króna.

<>

Borguðu ekki skatta og gjöld

Við höfum sagt fréttir af því að pólskt verktakafyrirtæki hafi svikið pólska starfsmenn sína um laun og hlunnindi, jafnvel mánuðum saman. Fyrirtækið, G&M, borgaði verkamönnum laun langt undir taxta, og greiddi ekki yfirvinnukaup. Nú hefur komið í ljós að fyrirtækið greiddi ekki skatta af starfseminni. G&M var undirverktaki hjá LNS Sögu, og hefur unnið að fjölmörgum verkefnum hérlendis.

Byggingavinna við sjúkrahótelið við Hringbraut er stopp, eftir að verktakafyrirtækið G&M hætti skyndilega störfum. Tugir pólskra verkamanna sem vinna hjá fyrirtækinu, við sjúkrahótelið, við byggingu Valsmanna á Hlíðarenda og við virkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum, sitja eftir með sárt ennið.  „Við erum að tala um tugmilljóna kröfur sem að starfsmennirnir eiga á þetta fyrirtæki vegna brota á kjarasamningum,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Allir tapa

Halldór segir að allir tapi á þessu. Það sé erfitt fyrir heiðarleg fyrirtæki að keppa um verkefni við verktaka sem nýti sér ódýrt vinnuafl. „Við getum held ég fullyrt með með mikilli vissu, í ljósi þess sem síðar hefur komið í ljós, að forsendan fyrir þeim samningum og þeim samningssamböndum var að hér ætti að svíkja og pretta.“

Aðspurður vildi Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri LNS Saga, lítið tjá sig um þetta. „Ég vil svosem ekkert vera að blanda mér akkúrat í þetta en við greiðum og allir okkar undirverktakar greiða samkvæmt íslenskum samningum og eiga að gera það, og ef þeir gera það ekki þá er það brot á  samningum við okkur, og þá bregðumst við við. Það er óásættanlegt fyrir okkur að menn fái ekki greitt samkvæmt íslenskum samningum og lögum og reglum,“ segir Ásgeir.

Þarf að setja lög um keðjuábyrgð

Halldór segir mikilvægt að keðjuábyrgð verði fest í lög. „Við leggjum núna alla áherslu á að hér verði sett löggjöf um keðjuábyrgð, þ.e.a.s. að verkkaupar eða aðalverktakar, að þeir þurfi þá að ábyrgjast laun og önnur starfskjör starfsmanna undirverktaka og starfsmannaleiga á þeirra vegum.“ Hann segir kjör verkamanna G&M hafa verið langt undir launum á íslenskum vinnumarkaði. „Þau voru langt undir kjarasamningum svo að það munaði tugum ef ekki hundruð þúsunda í hverjum einasta mánuði.“

Heimild: Ruv.is