Home Fréttir Í fréttum Þrjú möstur Kröflulínu þutu upp á fyrsta degi

Þrjú möstur Kröflulínu þutu upp á fyrsta degi

134
0
MYND/LANDSNET.

Aukinnar bjartsýnir gætir nú um að kísilver á Bakka fái raforku í tæka tíð eftir að Kröflulína 4 fékk grænt ljós í fyrradag. Framkvæmdir við línulögnina fóru á fullt í gær, og tókst að reisa þrjú möstur yfir daginn, og er nú keppst í kappi við tímann að ná sem flestum upp áður en vetrarhörkur skella á.

<>

Verktakar Landsnets biðu ekki boðanna í gær og hófust þegar handa þegar ljóst var að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafði hafnað kröfu Landverndar um ógildingu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu.  Þar með hafði framkvæmdabanni verið aflétt á þessum kafla og var unnið svo rösklega í gær að þrjú möstur stóðu uppi í lok dags, en þau verða alls 193 á allri línuleiðinni.

Þótt menn bölvi því að hafa misst dýrmætan framkvæmdatíma í veðurblíðu haustsins er stefnt að því að vinna af krafti næstu vikur og eins langt inn í veturinn og veður leyfir.

Eftir nýjustu vendingar í kærumálum er Landsnet nú komið með þrjú af fjórum framkvæmdaleyfum fyrir samtals 88 prósentum leiðarinnar, aðeins vantar nú leyfi fyrir sjö kílómetra kafla Þeistareykjalínu í landi Þingeyjarsveitar, en einnig er óútkljáð eignarnámsmál í landi Reykjahlíðar.

Síðasta niðurstaða úrskurðarnefndarinnar þykir þó gefa fyrirheit um að fjórða og síðasta framkvæmdaleyfið fáist innan skamms, og að hornsteinn Þeistareykjavirkjunar hafi ekki verið lagður til einskis.

Í ráðamönnum á Húsavík er að minnsta kosti bjartsýnni tónn en fyrr í haust um að takast muni að afstýra meiriháttar fjárhagsáfalli og að virkjunin nái að skila raforku til kísilvers á Bakka á tilskildum tíma.  Það er þó háð því að vetrarveður stöðvi ekki línulögn á næstu vikum og að ekki dúkki upp fleiri kærumál.

Um hvort fleiri kærur séu í farvatninu vildi talsmaður Landverndar hins vegar ekkert tjá sig í dag.

Heimild:Visir.is